Verðum að forðast að verða kynslóðin sem klúðraði
Reynir Sævarsson, formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga, hélt erindi á Degi verkfræðinnar 28. mars sl. Hann fór yfir þróun íslenska ráðgjafarverkfræðigeirans, nærri aldarlanga sögu, og sagði frá starfi Félags ráðgjafarverkfræðinga innan Samtaka iðnaðarins. Hann nefndi að úthýsing opinberra aðila á verkfræðistörfum hefur skapað mikil verðmæti með bættri nýtingu reynslu og þekkingar en einkaframtakið hefur nýtt tækifæri til framþróunar og útflutnings. FRV hefur lengi talað fyrir kostum og hagkvæmni þess að úthýsa með það fyrir augum að allir geti notið þess verðmæta mannauðs sem verkfræðistofurnar búa yfir. Eftir sem áður benti hann á að mikilvægt er að opinberir aðilar á sviði tækni og verkfræði búi yfir fullnægjandi þekkingu til að verkefni gangi hratt og vel fyrir sig.
Hann kom inn á að greina mætti ánægjulega þróun í flutningi verkfræðistarfa út á land en eftir Covid-19 hefði fjarvinna og fjarfundir fest sig í sessi sem hefði leitt til þess að færri hindranir væru á vegi starfsfólks sem kýs að búa úti á landi. Stór hluti verkefna verkfræðistofanna tengist atvinnuvegum eins og orkuiðnaði, ferðaþjónustu og sjávarútvegi sem dreifist vel um landið allt.
Reynir kom inn á að ráðgjafarverkfræðigeirinn hefði stöðugt notið framþróunar í tækni sem hefði aukið afköst greinarinnar. Afköstin munu halda áfram að aukast með tilkomu gervigreindarinnar en óvissa sé til staðar um nákvæmlega hvernig gervigreind mun koma til með að hafa áhrif innan geirans.
Að lokum fjallaði Reynir um innviðaskuldina sem samfélagið stendur frammi fyrir en samkvæmt nýlegri skýrslu FRV og SI um ástand og framtíðarhorfur innviða er innviðaskuldin um 680 ma. kr. í heildina. Mikið átak þarf til að koma ástandi innviða í ásættanlegt horf auk þess sem ráðast þarf í býsna hröð og umfangsmikil orkuskipti en miðað við stöðuna í dag stefnir í að Ísland sem var langfremst í þeim málum muni eftirláta öðrum ríkjum að fá athyglina fyrir að klára fyrst. Að lokum benti Reynir á að ákvarðanafælni og íþyngjandi stöðvunarvald mikils minnihluta þegar kemur að þessum efnum sé samfélaginu afar skaðlegt. Hans lokaorð voru þau að við verðum að breyta þessu og forða því að verða kynslóðin sem klúðraði.
Reynir Sævarsson, formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga.