Fréttasafn25. nóv. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál

Verkefnið framundan er að auka verðmætasköpun

Veturinn mun reyna á og samdrátturinn mun vara eitthvað fram á nýtt ár en hagkerfið mun svo vonandi taka við sér á seinni helmingi næsta árs. Samhliða þessu má alveg búast við því að fyrirtæki muni halda áfram að hagræða í rekstri. Þetta kemur meðal annars fram í viðtali við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í nýjustu útgáfu 300 stærstu sem Frjáls verslun gefur út. 

Þar segir Sigurður jafnframt að það sé mikið umhugsunarefni að opinberum starfsmönnum fjölgi á sama tíma og fyrirtæki landsins leiti allra leiða til að hagræða í rekstri við krefjandi aðstæður. „Verkefnið framundan er að auka verðmætasköpun enn frekar til að standa undir frekari aukningu lífskjara. Það má að sumu leyti segja að ef Ísland væri heimili væri eignastaðan góð en innkoman þyrfti að vera meiri. Lykilspurningin er sú á hverju hagvöxtur framtíðar eigi að byggja.“ Hann segir að hagvöxtur framtíðarinnar sé ekki greyptur í stein heldur ráðist hann m.a. af ákvörðunum sem teknar séu í dag. „Við getum gert ýmislegt til að bæta samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja og þar með aukið verðmætasköpun þeirra og lífsgæði íslenskra heimila. Með réttri hagstjórn má bæði milda niðursveifluna og undirbyggja næsta hagvaxtarskeið.“

Hér er hægt að nálgast eintak af útgáfunni.