Fréttasafn14. jan. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Verkfræðingar og arkitektar í lykilhlutverki í umhverfismálum

Það er alveg ljóst að ráðgjafarverkfræðingar munu spila lykilhlutverk í því að takast á við áskoranir framtíðar á sviði umhverfismála. Þetta kemur meðal annars fram í viðtali við Svein Inga Ólafsson, forstjóra Verkís, í Sector Review, tímariti norrænna verkfræði- og arkitektastofa sem kom út í byrjun ársins. Í tímaritinu sem gefið er út árlega er yfirlit yfir rekstur helstu verkfræði- og arkitektastofa í hverju Norðurlandanna á árinu 2019. Það er Félag ráðgjafarverkfræðinga, FRV, og Samtök arkitektastofa, SAMARK, sem eiga aðild að skýrslunni. 

Sveinn-Ingi-Olafsson-VerkisÍ viðtalinu við Svein Inga kemur jafnframt fram að allir geti verið sammála um mikilvægi sjálfbærni í okkar samfélagi en það séu hins vegar skiptar skoðanir meðal ráðgjafarverkfræðinga um hvernig við náum því markmiði. „Fyrirtækin í okkar geira framkvæma m.a. mat á umhverfisáhrifum í stórum verkefnum sem smáum. Þá gegna fyrirtækin lykilhlutverki í hönnun sjálfbærnilausna á öllum sviðum verkfræðiþjónustu. Í okkar huga skiptir öllu að hugað sé að sjálfbærni á hönnunarstigi – þar er grunnurinn fyrir framtíðina lagður. Þannig náum við sem bestri útkomu og framköllum samfélagslega hagkvæma lausn með tilliti til hagrænna, umhverfislegra og félagslegra þátta.“

Þegar Sveinn Ingi er spurður um helstu áskoranir í rekstri verkfræðistofa um þessar mundir nefnir hann hækkun raungengis á mælikvarða launa sem hann segir að hafi gert stofunum erfitt um vik á alþjóðlegum samkeppnismörkuðum. „Nú erum við jafnframt að upplifa samdrátt í eftirspurn hjá byggingaverktökum. Þá hefur fjárfesting í orkuinnviðum verið lítil um einhvern tíma en orkufyrirtækin hafa verið mjög stórir viðskiptavinir á markaðnum. Því má segja að við séum að sjá samdrátt í eftirspurn á mörgum lykilmörkuðum innanlands. Það er hins vegar ýmislegt jákvætt á döfinni, m.a. fyrirheit stjórnvalda um aukningu í innviðafjárfestingu.“   

Félagsmenn SI geta nálgast tímaritið með því að hafa samband við sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, johanna@si.is.

Sector-Review-2020