Fréttasafn27. mar. 2020 Almennar fréttir

Verndum störf og fyrirtæki með því að kaupa íslenskt

Við erum í raun að upplifa efnahagslegar hamfarir. Í ljósi þess getum við öll lagt okkar af mörkum til að reyna að milda skellinn og vernda störf og fyrirtæki hér á landi. Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í grein sinni í Fréttablaðinu í dag undir yfirskriftinni Kaupum íslenskt. Hún segir daglegt líf okkar hafa riðlast sem aftur hafi áhrif á ýmsar atvinnugreinar svo sem hárgreiðslustofur, snyrtistofur, líkamsræktarstöðvar, verslanir, veitinga- og kaffihús, leigubíla, ferðaþjónustufyrirtæki og svo mætti lengi telja. „Ég hvet ykkur því til að styðja við atvinnustarfsemi í ykkar nærumhverfi. Margir veitingastaðir eru opnir með 20 manna takmörkunum og margir veitingastaðir senda mat heim eða afhenda í bílinn. Bakaríin okkar eru opin og bjóða okkur upp á nýbökuð brauð á hverjum degi. Blómabúðirnar eru opnar og fátt gleður meira en fallegur blómvöndur. Margar íslenskar verslanir selja í gegnum netið og senda heim. Svo eru fjöldamörg matvælafyrirtæki hér á landi sem eru þjóðhagslega mikilvæg og tryggja matvælaöryggi okkar landsmanna. Þar er nú víðast unnið dag og nótt til að ekki verði skortur á mat.“

Guðrún segir að við eigum að vera þess minnug nú sem aldrei fyrr að ábyrgð fylgir hverjum kaupum. „Með kaupum á íslenskri vöru og eða þjónustu erum við að tryggja atvinnu á Íslandi. Ég færi mínar krónur í þínar hendur og svo koll af kolli. Með kaupum á íslenskri vöru og þjónustu er ég að styðja við það samfélag sem ég hef kosið að búa í og samfélagið verður aldrei meira en það sem ég er reiðubúin að leggja til þess.“

Hér er hægt að lesa grein Guðrúnar í heild sinni.