Veruleg hækkun raforkuverðs
Rafmagnsverð hækkaði um 6,7% milli mánaða eða frá desember í fyrra til janúar á þessu ári samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Þetta er mesta mánaðarhækkun sem mælst hefur síðan um mitt ár 2010. Á síðustu tólf mánuðum hefur rafmagnsverð hækkað um 15,1%, sem er mesta hækkun frá miðju ári 2011, eða í 13 ár. Tólf mánaða hækkunartakturinn hefur verið að aukast undanfarið, þrátt fyrir að verðbólga hafi verið á niðurleið.
Samkvæmt nýlegri greiningu SI endurspeglar hækkunin á raforkuverði þá stöðu að raforkuframleiðsla hefur ekki haldið í við vöxt og þróun samfélagsins, þar á meðal fólksfjölgun. Ástæðan fyrir þessu er kyrrstaða í raforkuöflun síðastliðin 10 til 15 ár. Þetta aðgerðaleysi kostar samfélagið mikið, sem birtist nú í hækkun raforkuverðs.
Hins vegar eru vísbendingar um að orkufyrirtæki hafi hækkað verð of hratt eins og fram kom í viðtali við framkvæmdarstjóra SI í Viðskiptablaðinu í vikunni. Skammtímahorfur hafa batnað með betri vatnsbúskap i vetur en langtímahorfur hafa hins vegar versnað með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar var fellt úr gildi.
Viðskiptablaðið, 30. janúar 2025.
mbl.is, 30. janúar 2025.
RÚV, 30. janúar 2025.