Fréttasafn



11. okt. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Veruleikinn er að byggja þarf miklu fleiri íbúðir

Veruleikinn er bara sá að það þarf miklu miklu fleiri íbúðir á Íslandi heldur en verið er að byggja. Það leiðir til þess að það er slegist um hverja íbúð sem leiðir til verðlagshækkana og Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti með því að segja það bara beint út að það tengist skipulagsmálum í Reykjavík. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali Kristjáns Kristjánssonar í Sprengisandi á Bylgjunni þar sem einnig er rætt við Pawel Bartoszek, formann skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, en hann hefur haldið því fram að það stefni í metár í byggingu nýrra íbúða í Reykjavík og hafa Samtök iðnaðarins leiðrétt þær rangfærslur

834 íbúðir inn á markaðinn en ekki yfir 1.000 íbúðir

Þá kemur fram í máli Sigurðar varðandi rangfærslur sem Pawel hefur verið með að það snúi að fjölda íbúða inn á markaðinn. „Við erum að sjá allt aðrar tölur þar sem byggja á talningunni og samtölum okkar við verktaka. Við erum til dæmis að sjá það að inn á almenna markaðinn hafi komið 834 íbúðir á síðasta ári en ekki um eða yfir 1.000 eins og þið teljið. En segjum sem svo að þessar tölur séu réttar því yfir tímabil þá hljóta þær að vera það þó það séu skekkjumörk á einstaka árum. Þá sjáum við það að á 10 ára tímabili, 2011 til 2020, voru byggðar tæplega 5.200 íbúðir í Reykjavík, stærsta sveitarfélaginu á landinu. Það náttúrulega segir sig sjálft að það eru engin met í því að byggja 5.000 íbúðir á 10 árum. Það sem við höfum séð er það að met í umfangi var slegið árið 2019 þegar ríflega 2.700 íbúðir voru í byggingu í Reykjavík. Síðan hefur fjöldinn á íbúðum í byggingu farið minnkandi. Það hefur orðið samdráttur og núna í síðustu talningu erum við að sjá samdrátt á 2ja ára tímabili upp á 31%.“ 

Samdráttur í íbúðum í byggingu núna þýðir færri íbúðir í framtíðinni

Sigurður segir jafnframt að það að séu að koma íbúðir inn á markaðinn núna endurspegli umfangið fyrir tveimur árum. „Ef við horfum fram í tímann þá hljótum við að hafa áhyggjur, ekki síst með hliðsjón af markaðsaðstæðum núna, þar sem það er hreinlega slegist um hverja einustu íbúð á markaðnum. Við erum að sjá samdrátt í fjölda íbúða í byggingu sem hlýtur að þýða færri íbúðir inn á markaðinn í framtíðinni. Góðu fréttirnar eru þó þær í talningunni að íbúðum á fyrstu byggingarstigum fjölgar. Það er jákvætt og eftir stöðugan samdrátt núna um tveggja ára skeið þá erum við að sjá viðsnúning þar og það er gott. En þetta tekur auðvitað tíma og er ekki hughreystandi fyrir stöðuna næstu tvö árin.“

1.000 íbúða markmið Reykjavíkurborgar ekki nóg þegar þarf 3.500 nýjar íbúðir á ári

Sigurður segir að þegar rætt sé um íbúðir í byggingu séu hann og Pawel sammála en þegar komi að fjölda nýrra íbúða inn á markaðinn þá séu þeir ekki sammála. „Staðan er sú að það þarf að mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 30 þúsund nýjar íbúðir inn á markaðinn á næstu 10 árum, á þessum áratug réttara sagt. Samkvæmt þeirra mati þá þarf að byggja meira, það þarf fleiri nýjar íbúðir inn á fyrri hluta tímabilsins þannig að þau meta það þannig að það þurfi 3.500 nýjar íbúðir á Íslandi á hverju ári á næstu árum. Markmið Reykjavíkurborgar er að skila 1.000 nýjum íbúðum inn á markaðinn, það er kannski að ganga upp núna, en þó Pawel segi að aldrei hafi verið meira byggt þá er það bara ekki nóg.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

Bylgjan/Vísir , 10. október 2021.

Bylgjan-10-10-2021Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Pawel Bartoszek, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar.