Fréttasafn



1. des. 2023 Almennar fréttir Félag pípulagningameistara Mannvirki

Við sem þjóð erum rík að eiga vel iðnmenntað fólk

Rætt var við Böðvar Inga Guðbjartsson, formann Félags pípulagningameistara, í síðdegisútvarpi Rásar 2 fimmtudaginn 23. nóvember. Tilefnið var að þann dag fóru 40-50 félagsmenn Félags pípulagningameistara til Grindavíkur í samstarfi við Almannavarnir til að yfirfara og skoða hús með tilliti til skemmda á lögnum og til að koma þar hita á hús sem ekki virtust vera heit samkvæmt mælingum HS veitna. Með þeim í för voru einnig nokkrir rafvirkjar í Samtökum rafverktaka.

Böðvar Ingi ræddi verkefnið en dagurinn gekk að hans sögn vonum framar og var hann gríðarlega stoltur af félagsmönnum fyrir að taka svona vel í beiðni Almannavarna. „Dagurinn sýndi fyrst og fremst hvað við sem þjóð erum rík að eiga vel iðnmenntað fólk til að halda samfélaginu gangandi og ég er alveg svakalega stoltur af félagsmönnum okkar sem að svöruðu kallinu,“ sagði Böðvar Ingi en flest hús í Grindavík voru komin með hita eftir daginn.

Verkefni átti sér tveggja vikna aðdraganda að sögn Böðvars Inga en Almannavarnir voru í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Félag pípulagningameistara búin að vinna að nokkrum sviðsmyndum eftir því hvernig málið þróaðist áfram í Grindavík. Starfsmenn HS veitna unnu svo þrekvirki við að koma kerfinu af stað og að lokum varð verkefnið það að fara inn í um 80 hús á svæðinu og koma aftur hita á þau. „Það voru lykilmenn á svæðinu sem eru píparar í Grindvík og þeir voru lifandi fegnir að fá alla þessa aðstoð þar sem við blasti stórt verkefni,“ sagði Böðvar Ingi.

Þurfum að endurskoða hvernig við nálgumst uppsetningu kerfanna

Böðvar Ingi rædda það einnig að hann hefði sjálfur verið hugsi yfir því hvernig kerfin okkar eru sett upp hér á landi þar sem við göngum að því vísu að hafa aðgang að jarðvarma þar sem slíku dreifikerfi hefur verið komið á. „Svo er allt í einu komin upp sviðsmynd þar sem að heilt orkuver gæti farið undir hraun,” sagði Böðvar Ingi og nefndi að réttar væri að huga vel að þessum málum til framtíðar og að mikilvægt væri að kerfin væru þannig útbúin að þau væru lokuð og með frostlög á og að það væri líka hægt að tengja aðra orkugjafa með lítilli fyrirhöfn við þau til að lenda ekki í frostskemmdum.

Verðum að passa upp á iðnmenntunina okkar

Rætt var um stöðu iðnmenntunar hér á landi og hvort að ekki væri þörf á að mennta fleira fólk í iðngreinum. Böðvar Ingi ræddi um stöðuna í Evrópu en hann var þá nýlega búinn að sitja fund með systursamtökum félagsins í Brussel. Í Evrópu er vandinn mikill þar sem ungt fólk vill ekki fara í iðnnám og þeir sjá fram á gríðarlegan skort af iðnmenntuðu fólki árið 2030. „Hérna á Íslandi höfum við ekki pláss fyrir þetta unga fólk sem vill læra iðnmenntun,“ sagði Böðvar Ingi. „Hérna heima veitir þetta nám þér viss réttindi þannig að við verðum að passa okkur sem þjóð að vera ekki að hræra of mikið í lögverndun iðngreina og passa upp á fagið okkar. Við þurfum á iðnmenntun að halda til að halda þessu samfélagi gangandi“.

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Böðvar Inga í heild frá mínútu 16.

RÚV, 23. nóvember 2023.