Viðurkenningar fyrir ál- og kísiliðnaðarverkefni
Nýsköpunarmót Álklasans var haldið í sjöunda skipti í Hátíðarsal Háskóla Íslands fimmtudaginn 14. mars. Flutt voru erindi um framleiðsluferla fortíðar og framtíðar, lausnir nýsköpunarfyrirtækja og áskoranir í ál- og kísiliðnaðinum hér á landi og erlendis.
Á vef Álklasans kemur fram að forseti verk- og náttúrufræðideildar Háskóla Íslands, Sigurður Magnús Garðarsson hafi sett fundinn ásamt forseta verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík, Ármanni Gylfasyni. Fyrsti flytjandi erindis var Dr. Espen Sandnes hjá NTNU í Þrándheimum sem sagði frá rafgreiningu álkróðís, sem er leið til þess að framleiða ál án útblásturs koltvíoxíðs. Sunna Ólafsdóttir Wallevik, meðstofnandi Álvits, var með erindi umhverfisvænar lausnir Álvits fyrir áliðnað og húðunariðnað.
Að loknu kaffihlé tóku örerindi við. Júlíus Brynjarsson, framkvæmdastjóri umbóta og ABS hjá Alcoa Fjarðaáli ræddi um daglega stjórnun Fjarðaáls, en í slíkum rekstri skipta góð kerfi sköpum fyrir starfsmenn, yfirmenn og framleiðsluna sjálfa. Hans Atlason, stofnandi tölvusjónsfyrirtækisins Visk sagði frá þeirra starfsemi, en Visk hefur leyst ýmis vandamál fyrir Alcoa Fjarðaál með tölvusjón að vopni. Þá sagði Bjarni Már Gylfason, leiðtogi samfélagsmála og samskipta hjá ÍSAL, frá sjálfbærni í álframleiðslu í ljósi nýrrar löggjafar. Jón Hjaltalín Magnússon, stofnandi og framkvæmdastjóri Arctus Aluminium flutti erindi um álframleiðslu með lóðréttum eðalskautum, en það er framleiðsluaðferð sem hefur verið í þróun hér á landi sem myndi nánast útrýma kolefnislosun íslensks áliðnaðar. Guðlaugur Bjarki Lúðvíksson, framkvæmdastjóri umhverfis-, öryggis og umbótasviðs Norðuráls ræddi um markmið Norðuráls í losun á koltvísýringi, en Norðurál hefur náð miklum árangri í lækkun kolefnisspors álframleiðslunnar á Grundartanga. Að lokum sagði Guðrún Sævarsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, frá framleiðslu kísils með rafgreiningu, en Guðrún hefur staðið fyrir ýmsum áhugaverðum rannsóknum á því sviði sem og öðrum.
Þrjú verkefni á sviði ál- og kísiliðnaðar fengu hvatningarviðurkenningu ásamt 150.000 króna styrk:
- Guðlaug Geirsdóttir fékk viðurkenningu fyrir Mastersverkefni sitt í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands sem ber nafnið Greining viðskiptamódels koltvísýringsfyrirtækja. Í verkefni sínu kannaði og kortlagði Guðlaug mótvægisaðgerðir koltvísýringsfyrirtækja við losun og þær lausnir sem þau bjóða, en rannsóknin veitir gagnlegar upplýsingar um þeirra starfsemi og um leið innsýn í atvinnugreinina á Íslandi í heild.
- Brandon Velasquez doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík fékk viðurkenningu fyrir verkefni sitt Adaptation of Aluminum Reduction Cell for CSS þar sem hann þróaði hermunarlíkön af Hall-Héroult álframleiðsluferlinu til þess að kanna möguleikann á föngun á koltvísýringi frá álframleiðslu.
- Mehdi Maghsoudi doktorsnemi við Háskóla Íslands fékk viðurkenningu fyrir rannsóknar sínar hjá HÍ og nýsköpunarfyrirtækinu DTE, en verkefni hans er titlað sem Mapping Binary and Ternary Phase Diagrams Using Laser-Induced Breakdown Spectroscopy of Liquid Metal. Í rannsóknum sínum hefur Mehdi unnið að því að betrumbæta tækni DTE sem framleiðir efnisgreiningarbúnað fyrir málmiðnaðinn.
Styrktaraðilar eru Alcoa Fjarðaál, COWI, Landsbankinn, Launafl, Norðurál, Rio Tinto á Íslandi, Samál, Samtök iðnaðarins, Tæknisetur og Eurometal.
Myndir/Kristinn
Hér er hægt að nálgast upptöku frá viðburðinum:
https://livestream.com/hi/nyskopunarmotalklasans2024/videos/242108981