Víkingbátar ljúka við smíði stærsta bátsins til þessa
Aðildarfyrirtæki SI, Víkingbátar, var til umfjöllunar í sjónvarpsþættinum Atvinnulífið á Hringbraut. Fyrirtækið sérhæfir sig í bátasmíði úr trefjaplasti og selur til innlendra aðila og á erlenda markaði. Í þættinum greindi Matthías Sveinsson, eigandi Víkingbáta, frá því að tímamót hafi orðið í sögu fyrirtækisins þegar Víkingbátar luku við smíði Háeyjar ÞH nú í október.
Um er að ræða stærsta bát Víkingbáta til þessa en báturinn er tæplega 30 brúttótonna línubátur og kemur fram í þættinum að útkoman sé glæsileg. Báturinn býður upp á lokað hliðarþilfar, rúmlega tveggja metra lofthæð í lestinni og vandaða aðstöðu fyrir starfsmenn. Víkingbátar smíðuðu bátinn í samvinnu við Ráðgarð Skiparáðgjöf sem kom að hönnun bátsins. Í þættinum er farið yfir smíði Háeyjar og framleiðsluferli trefjaplastbáta, bæði dagróðrabáta og smábáta.
Á myndinni má sjá Matthías Sveinsson, eiganda Víkingbáta.
Á vef Hringbrautar er hægt að nálgast þáttinn.