Fréttasafn8. nóv. 2018 Almennar fréttir

Viljum benda á leiðir og lausnir

Þessi skýrsla er upphafið að þeirri vinnu sem Ísland þarf að fara í. Við finnum ekki nýjar og betri leiðir nema að hafa stefnu. Atvinnustefna SI er okkar framlag til að eiga uppbyggilegt samstarf við samfélagið og stjórnvöld um að skapa hér bestu skilyrði til verðmætasköpunar, því við hjá Samtökum iðnaðarins ætlum ekki bara að tala um vandamálin heldur viljum við einnig benda á leiðir og lausnir. Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, meðal annars í ávarpi sínu á fundi Samtaka iðnaðarins í Kaldalóni í gær þar sem kynnt var ný skýrsla samtanna Mótum framtíðina saman - atvinnustefna fyrir Ísland.

Þríleikur Samtaka iðnaðarins

Í ávarpi sínu sagði Guðrúnu jafnframt að á síðasta ári hafi Samtök iðnaðarins hafið ákveðna vegferð. „Vegferð sem hefur miðast að því að auka veg og vægi íslensks iðnaðar, að ávallt verði litið á iðnað sem eina af undirstöðu atvinnugreinum þjóðarinnar. Á síðasta ári gáfu Samtökin út skýrslu um stöðu innviða á Íslandi. Sú skýrsla markaði ákveðið upphaf og má segja að þar hafi í fyrsta sinn á Íslandi verið gerð heildstæð úttekt á stöðu og framtíðarhorfum innviða hér á Íslandi. Á Iðnþingi í mars gáfum við út skýrslu þar sem við kortlögðum samkeppnishæfni Íslands. Það má segja að þessar tvær skýrslur innviðaskýrslan og samkeppnishæfniskýrslan hafi verið upptaktur að þeirri skýrslu sem nú hefur litið dagsins ljós. Í dag gefum við út heildstæða atvinnustefnu fyrir Ísland, atvinnustefnu sem byggir á nýsköpun, menntun, innviðum og starfsumhverfi. Fjölmargir félagsmenn SI sem og aðrir hafa komið að þessari vinnu en vinnan hefur þó verið borin uppi af starfsmönnum SI. Þessi verkefni eru að fullu unnin af starfsmönnum SI og eru til merkis um það hversu gríðarlega öflugt fólk við höfum innan okkar raða og vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hönd hafa lagt á plóg í þessari vinnu. Ég er stolt af þessum skýrslum sem ég hef kosið að kalla Þríleikinn í daglegu tali og tel ég að atvinnustefnan sem hér er lögð fram verði mikilvægt plagg í umræðu komandi mánaða.“

Stjórnvöld grípi tækifærið og sendi skýr skilaboð

Þá sagði Guðrún að þegar horft sé til annarra landa, landa sem við viljum bera okkur saman við þá sé það athyglisvert hvernig þessar þjóðir eru að vinna þar sem mjög margar þeirra hafi gert eða eru að vinna að heildstæðum atvinnustefnum. Í niðurlagi ávarps síns sagði Guðrún að þegar stjórnvöld sendi okkur skilaboð hvetji þau til athafna eða letji. „Við biðlum því í dag til stjórnvalda að grípa tækifærið með okkur og sendi skýr skilaboð að við ætlum að vera þjóð í fremstu röð með framsækna atvinnustefnu sem mun styðja við vöxt og velsæld á Íslandi næstu áratugina.“

Hér er hægt að horfa á ávarp Guðrúnar:

https://vimeo.com/299489672