Fréttasafn



12. nóv. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Vinda ofan af flækjustigi til að uppbygging verði hagkvæmari

Það þurfa allir þak yfir höfuðið. Húsnæði er auðvitað mikilvægasta fjárfesting hverrar fjölskyldu og því mikið í húfi. Samhliða því að landsmönnum fjölgar ár frá ári þá þarf auðvitað að byggja fleiri íbúðir til þess að hýsa alla landsmenn. Það þarf að byggja um 2.000 íbúðir á ári næstu áratugina til að halda í við þróunina. Við vitum að flækjustigið er meira hér á landi en annars staðar, til að mynda á Norðurlöndunum. Regluverkið er flóknara hér en annars staðar. Það eru fleiri skref sem þarf að stíga til að byggja íbúðir. Þessu þarf að breyta. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Sigurður segir að félagsmálaráðherra hafi kynnt á fundi í gærmorgun tillögur sem lúta að einföldun og aukinni skilvirkni. Þessar tillögur hafa verið unnar af Byggingavettvanginum sem hélt mikinn samráðsfund í maí þar sem um 60 manns komu saman til þess að ræða það hvað mætti betur fara. Niðurstaðan af því hafi verið fjórar tillögur sem ráðherra kynnti.

Mestu umbætur í byggingarmálum í mörg ár

Sigurður segir að aðilar séu sammála um það að vinda ofan af flækjustigi þannig að uppbyggingin geti orðið hagkvæmari og skilvirkari þannig að íbúðir geti risið hraðar og á hagkvæmari hátt en áður. „Byggingavettvangurinn er vettvangur þar sem saman koma Samtök iðnaðarins og lykilstofnanir eins og Íbúðalánasjóður, Mannvirkjasjóður, Nýsköpunarmiðstöð, Framkvæmdasýsla ríkisins og svo hefur Samband íslenskra sveitarfélaga og Skipulagsstofnun setið fundina og verið með áheyrnarfulltrúa. Þannig að það er búið að ná saman við eitt borð öllum þessum helstu aðilum sem að koma að byggingamarkaðnum til að reyna að vinna að lausnum. Það hefur núna tekist. Við sjáum fram á að það verði þarna mestu umbætur í mörg mög ár í byggingarmálum ef þetta gengur allt saman eftir.“

Á vef Vísis er hægt að nálgast viðtalið við Sigurð í heild sinni.