Fréttasafn



4. mar. 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Vöxtur í iðnaði á seinni helmingi ársins

Könnun sem gerð var nú í febrúar á meðal aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins boðar að nú fari að vora í efnahagslífi landsmanna eftir harðan vetur. Benda niðurstöður könnunarinnar til þess að vöxtur verði í iðnaði á seinni helmingi þessa árs eftir samdrátt undanfarin misseri. Það eru afar jákvæðar fréttir en iðnaðurinn hefur burði til að verða drifkraftur efnahagsuppsveiflunnar nú með svipuðum hætti og í mörgum fyrri uppsveiflum. Greinin er stór – skapar ríflega fimmtung landsframleiðslunnar og starfa í landinu. Vöxtur iðnaðarins er því mikilvægur fyrir vöxt hagkerfisins, fjölgun starfa og bætt lífskjör í landinu. Þetta kemur fram í grein Ingólfs Bender, aðalhagfræðing SI, í ViðskiptaMogganum. 

Ingólfur segir að það sé þó rétt að stilla væntingum í hóf. Niðurstöður könnunarinnar bendi ekki til þess að efnahagsuppsveiflan verði kröftug í ár hvað svo sem verði á næsta ári. Fleiri iðnfyrirtæki séu að fara að ráða til sín starfsfólk á seinni helmingi ársins en þau sem séu að fækka starfsfólki. Munurinn sé hins vegar ekki mjög mikill. Hann segir hagstjórnarviðbrögð hafi dempað höggið. Gildi það bæði um aðgerðir í opinberum fjármálum og peningamálum. Vextir hafi verið lækkaðir og aðgengi að fjármagni bætt. Einnig hafi hið opinbera aukið við hallann svo um muni og örvað þannig innlenda eftirspurn. Ofarlega í forgangsröðun aðgerða hafi verið þættir sem styðji við samkeppnishæfni atvinnulífsins og dragi þannig úr niðursveiflunni og myndi grunn að nýju hagvaxtarskeiði. Megi þar nefna áherslu á nýsköpun, innviði, starfsumhverfi og menntun. Margt hafi því verið gert vel.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Ingólfur að iðnaðurinn hafi oft sýnt að hann sé þrautseigur þegar á reynir. Hann hafi einnig oft sýnt að hann sé drifkraftur stórstígra framfara. Vorboðinn sem nú sjáist í iðnaðinum séu því góð tíðindi og vísbending um að ekki sé langt í vorið í efnahagslífi landsmanna.      

Hér er hægt að lesa grein Ingólfs í heild sinni.

ViðskiptaMogginn, 3. mars 2021.