Fréttasafn



15. nóv. 2024 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Mannvirki Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Allir flokkar vilja virkja

Allir átta flokkarnir sem tóku þátt í kosningafundi SI undir yfirskriftinni Hugmyndalandið áforma á næsta kjörtímabili að flýta ferli leyfisveitinga og endurskoða lög um rammáætlun. 

Framsókn, Píratar og Vinstri græn vilja ekki svara því hvort þeir flokkar ætli að beita sér fyrir uppfærslu á rammaáætlun og bæta við virkjunarkostum. Hins vegar svara játandi Viðreisn, Sjálfstæðisflokkur, Flokkur Fólksins, Miðflokkurinn og Samfylkingin. 

Þegar spurt er hvort flokkurinn áformi að setja sérlög um einstaka virkjanir til að flýta fyrir framkvæmdum áforma Sjálfstæðisflokkurinn, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn að setja sérlög. Framsókn, Píratar og Vinstri græn segja nei. Viðreisn og Samfylking vilja ekki svara. 

Flokkur fólksins og Miðflokkurinn vilja ekki svara því hvort flokkarnir áformi að skapa jákvæða hvata til nýsköpunar og fjárfestinga í orkuskiptum en allir aðrir flokkar áforma slíkt. 

Flokkur fólksins áformar að setja ekki fjármagnaða aðgerðaráætlun um orkuskipti og kolefnishlutleysi og Miðflokkurinn vill ekki svara hvort sá flokkur áformi slíkt. Aðrir flokkar áforma að setja fjármagnaða aðgerðaráætlun um orkuskipti og kolefnishlutleysi.

Flokkur fólksins ætlar ekki að tryggja að fjármunir vegna kolefnisgjalda á sölu á losunarheimildum séu nýttir til fjárfestinga sem dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda. Framsókn, Viðreisn, Píratar, Samfylking og Vinstri græn áforma slíkt en Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn vilja ekki svara. 

Orkumal

Hér er hægt að nálgast niðurstöður fleiri spurninga sem lagðar voru fyrir flokkanna.

 

Misst af verðmætum tækifærum vegna þess að raforkukerfið er fulllestað

Í umræðum á kosningafundi SI segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, að tjónið af kyrrstöðu í raforkuöflun og uppbyggingu raforkukerfisins birtist með margvíslegum hætti í samfélaginu. Meðal annars í töpuðum útflutningstekjum sem séu allt að tugir milljarða á ári og að hér á landi höfum við misst af verðmætum tækifærum til atvinnuuppbyggingar á síðustu árum vegna þess að raforkukerfið sé fulllestað. Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokkur, segir að við séum núna á þeim stað að Landsnet sé með áform um 80 milljarða fjárfestingar á komandi árum sem verði langstærsta átak sem að Landsnet hafi farið í. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Viðreisn, segir að við eigum að fara í það að afla nýrrar orku en það sé líka alveg skýrt af hálfu Viðreisnar að ný orka eigi að fara í græna atvinnustarfsemi. Hún eigi að fara í orkuskiptin og því sem að meðal annars líka tengist loftslagsmálum. Svandís Svavarsdóttir, Vinstri græn, segir að afstaða flokksins sú sú að við notum raforkuna fyrir almenning. Við notum hana á forsendum hins opinbera og við notum hana þannig og virkjum þannig að það sé ekki á kostnað náttúruverndar. Hún segir einnig. „Og þess vegna geld ég varhug við hugmyndum um það að setja sérlög á einstaka virkjanir til að flýta fyrir framkvæmdum eins og það er hér orðað. Það er til þess eins fallið að beita meirihlutavaldi á Alþingi til þess að fara þvert á hugmyndafræði rammaáætlunar.“ Kristrún Frostadóttir, Samfylking, segir að þau hafi talað fyrir því að ríkisstjórnin eigi að setja sér ákveðið markmið um orkuvilja. Vegna þess að auðvitað sé það þannig að það sé alltaf hægt að ramma það upp þannig að það verði endalaus eftirspurn eftir orku. „Við vitum það alveg og ég skil alveg þann málflutning. En við þurfum að ákveða hvers konar atvinnulíf við viljum byggja upp og það þarf að vera einhver atvinnustefna hvað það varðar.“ Hún segir að Samfylkingin tali um 5 terawattstundir sem er einn fjórði af framleiðslunni í dag til 2035. „Og þarna erum við bara að horfa til hóflegrar fólksfjölgunar, nýrra atvinnugreina eins og landeldis og gagnavera og þess háttar og svo erum við líka að tala um orkuskiptin.“ Þegar Kristrún er spurð hverju það gæti skilað svarar hún að það séu tugir milljarða sem þetta gæti skilað. „Og þetta er ein af ástæðunum fyrir því að við leggjum svona mikla áherslu á þetta. Við áttum okkur alveg á því, ef við ætlum að standa undir velferðinni hérna í framtíðinni, þá verðum við líka að horfa til þessarar verðmætasköpunar.“ Kristrún segir eginnig að þegar það sé líka farið af stað með orkukosti, eins og úr rammaáætlun, að það taki við skilvirkt leyfisveitingaferli sem stoppi hlutina ekki á röngum stöðum. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Píratar, segir að Pírötum finnist svolítið bratt að tala um einhvern gríðarlegan orkuskort þegar að Ísland sé með mestu orkuframleiðslu á haus, ef ekki bara í öllum heiminum. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, sem stýrði umræðunum leiðrétti Þórhildi og sagði að það væri ekki þannig heldur værum við í 22. sæti yfir lönd heimsins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Miðflokki, segir að hugmyndin um rammaáætlun væri ágæt, svona á pappír. „En hún hefur bara ekki gengið almennilega upp. Af því að hún hefur verið notuð, henni kannski misbeitt, fyrst og fremst til þess að koma í veg fyrir framkvæmdir.“ Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsókn, segir að í raun og veru getum við sagt að samþykktin á rammaáætlun og afgreiðsla stofnana á síðastliðnum þremur árum hafi tryggt það að við séum með svona þokkalega sýn næstu árin. Síðan þurfum við að hafa áhyggjur. Ragnar Þór Ingólfsson, Flokkur fólksins, segir flokkinn fylgjandi því að bæta við virkjanakostum en þau séu á móti því að gera það með komu vindmyllugarða.

 

Hér er hægt að nálgast umræður um orkumál á kosningafundi SI:

https://vimeo.com/1029706440

 


Formenn og fulltrúar átta flokka tóku þátt í umræðum á kosningafundi SI í Silfurbergi í Hörpu. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, stýrði umræðunum.