Fréttasafn



17. maí 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Athafnaborgin standi undir nafni

Samtök iðnaðarins fagna því framtaki stjórnenda borgarinnar að kynna Reykjavík sem athafnaborg. Nú er lag að sýna í verki að þeim sé alvara með því að greiða götu atvinnustarfsemi í allri borginni í stað þess að ýta henni út í jaðarinn. Athafnaborgin verður að standa undir nafni. Þetta skrifar Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að borgarskipulag þar sem iðnaður, verslun og þjónusta þrífist í bland við íbúabyggð tryggi blómlegt samfélag. Það skjóti því skökku við að svo virðist sem stjórnendur Reykjavíkurborgar vilji ýta iðnaði út að jaðri borgarinnar eða jafnvel út fyrir borgarmörkin en sú hafi því miður verið þróunin undanfarin ár. Þessi stefna auki kostnað samfélagsins á margan hátt þar sem m.a. ferðast þurfi lengri leiðir til og frá vinnu og sömuleiðis milli fyrirtækja. Þannig aukist umferð með tilheyrandi töfum og mengun.

Atvinnustarfsemi gert erfitt fyrir í borginni - aukin skattbyrði og auknar tafir

Þá segir Sigurður í greininni að Reykjavíkurborg geri þeim sem reka atvinnustarfsemi erfitt fyrir í mörgu tilliti. Álagðir fasteignaskattar á fyrirtæki í Reykjavík hafi hækkað hratt síðustu ár og að á sama tíma og umferð hafi stóraukist hafi lítið verið um samgönguframkvæmdir innan borgarmarkanna. Ferðatími fólks í og úr vinnu frá úthverfum að miðju hafi aukist um allt að 45% á nokkrum árum. Þetta valdi því að höfuðborgarbúar sói heilmiklum tíma í umferðartafir með tilheyrandi kostnaði og skerðingu á lífsgæðum. 

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.