Fréttasafn



27. ágú. 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Fréttatilkynning

Atvinnustefna verði stökkpallur inn í næsta hagvaxtarskeið

Samtök iðnaðarins hafa skilað inn ítarlegri umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035 enda hafa samtökin kallað eftir atvinnustefnu um margra ára skeið.

Í umsögninni fjalla samtökin meðal annars um vaxtartækifæri í útflutningsgreinum með háa framleiðni og benda á að ef atvinnustefna eigi að vera trúverðug þurfi henni að fylgja langtímaáætlun um raforkuöflun til næstu tíu ára. Samtök iðnaðarins fagna því mjög að stjórnvöld sýni vilja í verki með mótun atvinnustefnu í samvinnu við atvinnulífið í þeim tilgangi að auka verðmætasköpun með sjálfbærum vexti atvinnugreina og aukinni framleiðni.

Bent er á að mestu vaxtartækifærin í hagkerfinu liggi í íslenskum iðnaði og ætti mótun atvinnustefnu að taka mið af því. Góð lífskjör landsmanna byggja á því að hér á landi séu framleidd verðmæti sem seld eru á erlendum mörkuðum. Samtök iðnaðarins segja í umsögninni að setja þurfi aukna samkeppnishæfni Íslands í algjöran forgang til viðbótar við hagsmunagæslu á alþjóðavettvangi til að tryggja greiðan aðgang að helstu mörkuðum.

Atvinnustefna stuðli að aukinni framleiðni og samkeppnishæfni

Atvinnustefna getur orðið mikilvægasta einstaka stefna stjórnvalda til þess að auka samkeppnishæfni á skipulegan hátt og stefnumótun í öðrum málaflokkum þarf að taka mið af atvinnustefnu eigi markmiðin um aukna framleiðni að nást. Með mótun atvinnustefnu skapast meiri fyrirsjáanleiki í rekstri fyrirtækja sem auðveldar ákvarðanatöku en með öllum orðum sínum og gjörðum senda stjórnvöld skilaboð sem horft er til við fjárfestingar og í fyrirtækjarekstri.

SI leggja meðal annars til mikilvægar aðgerðir og umbætur í fimm málaflokkum, á sviði nýsköpunar, innviða, menntamála, starfsumhverfis og orku- og loftslagsmála, sem geta öll stuðlað að aukinni framleiðni. Einnig er bent á fjölmörg tækifæri í vexti iðnaðar þar sem framleiðni er há og útflutningur gæti aukist um tugi milljarða króna á næstu árum.

„Samtök iðnaðarins binda miklar vonir við atvinnustefnu Íslands og vilja taka virkan þátt og leggja sitt af mörkum í því samráði sem framundan er. Tækifærin til vaxtar í hagkerfinu eru fjölmörg þar sem íslenskur iðnaður mun leika lykilhlutverk. Með því að gera Ísland að aðlaðandi kosti fyrir fjárfestingu í nýsköpun, hugvit, þekkingu og hágæðaframleiðslu geta orðið til fleiri verðmæt fyrirtæki og háframleiðnistörf og þar með aukast lífsgæði allra landsmanna. Setja þarf samkeppnishæfni Íslands í algjöran forgang og ryðja heimatilbúnum hindrunum úr vegi. Þannig eykst framleiðni og þar með lífskjör hér á landi. Atvinnustefna stjórnvalda, ef vel tekst til, getur verið stökkpallur inn í næsta hagvaxtarskeið,“ segir í niðurlagi umsagnar SI.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni. 


mbl.is, 28. ágúst 2025.