Fréttasafn



8. okt. 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Fréttatilkynning

Dýrkeypt ákvörðun að halda vöxtum óbreyttum

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti í morgun þá ákvörðun sína að halda stýrivöxtum óbreyttum. Samtök iðnaðarins (SI) telja að aðhaldsstig peningastefnunnar sé of mikið miðað við stöðu efnahagslífsins. Hátt vaxtastig er mjög dýrkeypt fyrir samfélagið. Aðhald peningastefnunnar er farið að hafa veruleg neikvæð áhrif á stöðu og þróun iðnaðar og atvinnulífs í heild.

Hátt vaxtastig þrengir að atvinnulífinu

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem birt var í morgun kemur fram að „greinilegur viðsnúningur hefur orðið í þróun efnahagsumsvifa undanfarið og spennan í þjóðarbúinu hefur hjaðnað í takt við þétt taumhald peningastefnunnar“. Ljóst er að núverandi vaxtastig er orðið þungur baggi að bera fyrir heimili og fyrirtæki og eru afleiðingarnar farnar að sjást í hagtölum sem sýna hægan hagvöxt og vaxandi atvinnuleysi. Áhrifanna gætir í iðnaði þar sem nú má greina samdrátt. Svo dæmi sé tekið er starfsfólki nú að fækka í öllum helstu greinum iðnaðar.

2025-10-Starfandi-i-idnadi

Samdráttur í byggingariðnaði og þrýstingur á húsnæðismarkaði

Í nýlegri greiningu SI um stöðu og þróun í byggingariðnaði kemur fram að ýmis merki sjáist nú um samdrátt í greininni. Háir vextir hafa dregið úr uppbyggingu íbúða og eftirspurn eftir nýju húsnæði, sem dregið hefur úr veltu og fækkað störfum í greininni.

Verðbólgan mælist nú 4,1% og stýrivextir bankans 7,5%. Líkt og SI hafa ítrekað bent á er rót verðbólgu launaþróun og staða húsnæðismarkaðar. Peningastefnunefndin segir í yfirlýsingu sinni að launahækkanir mælist töluverðar sem hafi unnið gegn áhrifum peningastefnunnar og skýri verðbólguna að hluta. Í gögnum Hagstofunnar kemur fram að rúmlega 40% verðbólgunnar megi rekja til verðhækkunar húsnæðis og þess ójafnvægis og framboðsskorts sem hafi verið á þeim markaði. Seðlabankastjóri hefur bent á að peningastefnan sé ekki gott tæki til að taka á verðbólgu sem er sprottin af þessum rótum. Samtök iðnaðarins taka undir það enda laga háir stýrivextir ekki þann kerfisvanda sem er á húsnæðismarkaði, þeir fjölga ekki lóðum, bæta ekki feril skipulagsmála eða einfalda regluverk. Þvert á móti gera háir stýrivextir framboðsvandann verri með því að hægja á íbúðaruppbyggingu og skapa þannig hættu á húsnæðisskorti í næstu uppsveiflu.

Verðbólgu þarf að ná niður með samstilltu átaki

Í umsögn SI um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2026 kemur fram að mikilvægt sé að ríkisfjármálin styðji betur við Seðlabankann í að ná verðbólgu nær 2,5% markmiði án harðrar lendingar hagkerfisins. Samtökin benda á að með frekara aðhaldi í ríkisfjármálum væri hægt að draga úr verðbólgu og lækka vexti án þess kostnaðar sem núverandi peningalega aðhald gerir. Samtök iðnaðarins leggja áherslu á að samstillt hagstjórn Seðlabankans, ríkisins, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins sé lykilatriði til að ná niður verðbólgu án mikils kostnaðar fyrir atvinnulífið og samfélagið allt. 



mbl.is, 8. október 2025.