Eiginfjárkröfur lánastofnana geta hamlað húsnæðisuppbyggingu
Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins hafa skilað sameiginlegri umsögn til Alþingis um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, svokallað CRRIII-frumvarp þar sem samtökin vara við mögulegum áhrifum á húsnæðismarkað og uppbyggingu íbúða. Frumvarpið felur í sér innleiðingu reglugerðar Evrópusambandsins (ESB 2024/1623) sem miðar að því að styrkja viðnámsþrótt lánastofnana með áhættunæmari eiginfjárkröfum. Samtökin vara við því að frumvarpið geti að óbreyttu haft óæskileg áhrif á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Íslandi.
Hækkun eiginfjárkrafna og áhættuvoga gæti dregið úr framkvæmdum
Í umsögninni er vakin athygli á því að fyrirhugaðar breytingar á eiginfjárhlutfalli framkvæmdalána fyrir íbúðarhúsnæði gætu gert fjármögnun byggingarverkefna erfiðari. Ef fallist verður á tillögur um að lágmarkseiginfjárframlag hækki úr 20% í 35%, sem myndi í flestum tilfellum leiða til þess að verkefnin falli undir 150% áhættuvog. Það myndi þýða hærri vaxtakostnað og aukinn byggingarkostnað. Samtökin benda á að slík þróun vinni gegn þörf samfélagsins fyrir fjölgun íbúða og kunni að skapa fákeppni á markaði fyrir íbúðauppbyggingu, þar sem aðeins örfáir aðilar gætu staðist hertar kröfur.
Ungt og efnaminna fólk gæti orðið undir
Að mati samtakanna felur frumvarpið einnig í sér áhættu á að veita efnaminna fólki lakari lánskjör. Með hærri áhættuvogum fyrir fasteignalán, þar sem veðhlutfall skiptir miklu, gæti útlánavaxtakostnaður aukist sérstaklega fyrir þá sem leggja fram minna eigið fé, oft ungt fólk að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði.
Frumvarpið í andstöðu við stefnu stjórnvalda
Í umsögninni er lögð áhersla á að frumvarpið sé í andstöðu við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um aukna húsnæðisuppbyggingu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru margvíslegar aðgerðir kynntar til að auka framboð á íbúðum, en frumvarpið, eins og það liggur fyrir, kunni að vinna gegn þeim markmiðum með því að hækka fjármögnunar- og byggingarkostnað. Nauðsynlegt sé að lagaumhverfið stuðli að jafnvægi milli fjárhagslegs stöðugleika og samfélagslegrar þarfar fyrir húsnæði og að leita þarf leiða til að tryggja að innleiðingin hafi ekki neikvæð áhrif í för með sér fyrir húsnæðisuppbyggingu.
Mikilvægt að tryggja samræmi stefnu og framkvæmdar
Samtök iðnaðarins minna á mikilvægi þess að regluverkið í kringum lánveitingar og húsnæðisuppbyggingu styðji við þau markmið sem stjórnvöld hafa sett fram í húsnæðismálum. Ef aðgerðir stjórnvalda ganga í berhögg við hvort annað, með því að auka kostnað og skapa hindranir á sama tíma og krafist er hraðari uppbyggingar, er hætt við að árangur náist ekki.
Hér er hægt að nálgast umsögnina.