Fréttasafn4. okt. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki

Einkaaðilar komi að innviðauppbyggingu í meira mæli

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, var meðal frummælenda á fundi Arion banka um samvinnuleið við fjármögnun innviðauppbyggingar þar sem hið opinbera og einkageirinn sameinast um framkvæmdir (e. Public Private Partnership). Hann sagði það vera staðreynd að hér á landi væri mikil uppsöfnuð þörf fyrir framkvæmdir og uppbyggingu innviða. „Samtök iðnaðarins gáfu út skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi þar sem kemur fram að viðhaldsþörfin er 372 milljarðar króna og þá er ótalið það sem þarf að fjárfesta í nýjum innviðaverkefnum. Auk þess kom fram í nýrri skýrslu OECD að íslenskir innviðir væru komnir að þolmörkum og stjórnvöld ættu að fjárfesta meira í innviðauppbyggingu.“

Sigurður nefndi kosti þess að fara samvinnuleiðina og til væru mörg vel heppnuð dæmi, líkt og Hvalfjarðargöngin. „Einkaaðilar eru að taka á sig áhættu gegn gjaldi, hið opinbera er ekki sjálft bundið með fé í innvðunum og getur því nýtt fjármuni sína í annað. Þá hafa rannsóknir sýnt að slíkar innviðafjárfestingar standast frekar tíma- og kostnaðaráætlanir og viðhaldi er jafnvel betur sinnt.“

Sigurður sagði jafnframt að mikilvægt væri að forgangsröðun innviðafjárfestinga tæki mið af þjóðhagslegri arðsemi. „Slakinn sem reiknað er með að myndist í hagkerfinu á næstu misserum þarf að nýta til að byggja upp innviði. Með því er dregið úr niðursveiflunni og byggt undir stoðir hagvaxtar til lengri tíma. Það liggur fyrir að þörf er á frekari fjárfestingum í innviðum og því ættu einkaaðilar að koma að uppbyggingu innviða í meira mæli.“

Hér er hægt að nálgast viðtal við Sigurð í Markaðnum um samvinnuleiðina.

Hér er hægt að nálgast umfjöllun í Fréttablaðinu.