Fréttasafn



21. okt. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Landssamband bakarameistara

Forkeppni um Köku ársins

Forkeppni um Köku ársins 2022 verður haldin dagana 21.-22. október. Þar gefst bökurum innan Landssambands bakarameistara tækifæri til að senda inn kökur sem þurfa að uppfylla þau skilyrði að vera bragðgóðar og skurðfallegar úr auðfengnum hráefnum sem auðvelt er að framleiða með aðferðum sem tíðkast í bakaríum. 

Á hverju ári leitar Landssamband bakarameistara að stuðningsaðila fyrir Köku ársins og að þessu sinni er það Innbak sem er aðalstuðningsaðili keppninnar og því er gert að skilyrði að kakan innihaldi Créme Brulée frá Debic. Í fyrra var gert að skilyrði að notað væri hraun í kökuna þar sem Góa var aðalstuðningsaðili, árið þar á undan var gert að skilyrði að nota Tromp þar sem Nói-Siríus var aðalstuðningsaðili og þar áður appelsínu-tröffle frá Odense þegar Ölgerðin var aðalstuðningsaðili. 

Dómnefnin í forkeppninni er skipuð þremur sérfræðingum á sviði bakara- og kökugerðar og getur dómnefndin ákveðið að fleiri en þrjár kökur komist áfram í lokakeppni sem fram fer 19. nóvember. Kakan sem verður fyrir valinu hlýtur nafnbótina Kaka ársins 2022 og verður uppskriftinni dreift til allra félagsmanna Landssambands bakarameistara. Sala kökunnar hefst síðan á konudaginn 20. febrúar 2022.

Á myndinni er Kaka ársins 2021 sem er Góu hraunkaka með karamellumús og ferskju- og ástaraldinfrómas.