Fréttasafn23. feb. 2021 Almennar fréttir Félag ráðgjafarverkfræðinga Innviðir Mannvirki

Hampsteypa ryður sér til rúms í byggingariðnaði

Um 30 manns mættu á rafrænan fund Yngri ráðgjafa sem er deild innan Félags ráðgjafarverkfræðinga þar sem fjallað var um umhverfisvæn náttúruleg byggingarefni. Þetta var fimmti fundurinn í fundaröð Yngri ráðgjafa um nýsköpun og nýjar lausnir í mannvirkjagerð. 

Á fundinum hélt Logi Unnarson Jónsson, stofnandi Græna steinsins ehf. og stjórnarmaður í Hampfélaginu, erindi um umhverfismál í byggingariðnaði og umhverfisvæn náttúruleg byggingarefni. Hann fjallaði m.a. um þróun og rannsóknir á náttúrulegum byggingarefnum fyrir íslenskar aðstæður, þ.m.t. hampi. Hampsteypa hefur verið að ryðja sér til rúms í byggingariðnaðinum í Evrópu. Hampsteypa myglar ekki, hefur hátt einangrunargildi og brennur ekki. Ýmsar rannsóknir og vöruþróanir eru nú í ferli hér á landi varðandi nýtingu hamps. Logi  fjallaði sömuleiðis um nýtingu á íslensku timbri í burðarvirki og tók fram að mikil tækifæri séu til staðar fyrir íslenskan markað að verða samkeppnishæf við innflutt hráefni. Hér sé hægt að skapa enn blómlegri timbur- og hampiðnað en mikill skriðþungi er í náttúrulegum lausnum í byggingariðnaði um allan heim.

Hér er hægt að nálgast glærur fundarins.

Góðar umræður mynduðust í lok fundar. Þar kom m.a. fram að hampsteypa kemur ekki í staðinn fyrir steypu en hægt er að nota íslenskt timbur sem burðarvirki og hampsteypu sem einangrunarefni.

Fundarstjóri var Sigríður Ósk Bjarnadóttir, byggingarverkfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf og stjórnarmaður í Yngri ráðgjöfum. 

Fundur-23-02-2021-1-Logi Unnarson Jónsson, stofnandi Græna steinsins ehf. og stjórnarmaður í Hampfélaginu.

Fundur-23-02-2021-2-Sigríður Ósk Bjarnadóttir, byggingarverkfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf og stjórnarmaður í Yngri ráðgjöfum.