Fréttasafn



30. nóv. 2023 Almennar fréttir Félag blikksmiðjueigenda Félag pípulagningameistara Innviðir Mannvirki Samtök rafverktaka

Hönnun fái meira vægi fyrir verklegar framkvæmdir

Hjá Samtökum iðnaðarins er starfræktur Tæknihópur lagnakerfa sem samanstendur af formönnum Félags pípulagningameistara, Samtaka rafverktaka og Félags blikksmiðjueigenda. Þessir aðilar ásamt lagnahönnuði frá VSÓ komu saman fyrir skömmu og ræddi meðal annars gæði útboðsgagna.

Tilgangurinn var að leita leiða til að bæta starfsumhverfi þeirra iðngreina sem að hópnum standa. Fundarmenn fóru yfir samspil tæknikerfa sem heyrir undir hverja iðngrein fyrir sig og þá staðreynd að tæknikerfi í nýjum mannvirkjum verða sífellt fullkomnari og gera á sama tíma kröfur til góðs aðgengis svo hægt sé að sinna daglegum rekstri kerfana sem og viðhaldi þeirra.

Hópurinn var sammála um að nauðsynlegt væri að gefa hönnun rýmra vægi í undirbúningi verklegra framkvæmda enda myndi það skila sér í lægri framkvæmdakostnaði þegar verklegar framkvæmdir hæfust. Á fundinum kom fram að of algengt væri að reynt sé að halda niðri heildarkostnaði með því að spara í hönnun sem valdi því að mannvirki sé ekki nægjanlega vel undirbúið og verk sjaldnast fullhannað áður en leitað sé tilboða í framkvæmdina. Það hafi mikil áhrif á gæði útboðsgagna, skilningur og væntingar verkkaupa og verktaka væri ekki sá sami sökum vanhönnunar og að tíma- og kostnaðaráætlanir stæðust ekki. Hópurinn var sammála um að ef verkkaupar fjárfesti í ríkari mæli í hönnun, bæði hvað varðar kostnað og tíma, yrði það til verulegra bóta og eðlilegt væri að fullhanna verklegar framkvæmdir áður en þær væru boðnar út og þær hafnar. Með slíkri fjárfestingu verkkaupa væri unnt að draga verulega úr áhættu á því að tíma- og kostnaðaráætlanir mannvirkis fari fram úr áætlun.

Á fundinum voru nefnd mýmörg dæmi um framkvæmdir þar sem tíma- og kostnaðaráætlanir hafi farið úr böndunum og töldu fundarmenn að rót vandans lægi ekki sýst hjá ríki og sveitarfélögum sem iðullega væru að keppast við að hefja framkvæmdir innan kjörtímabils.

Á myndinni eru Böðvar Ingi Guðbjartsson formaður Félags pípulagningameistara, Hjörleifur Stefánsson formaður Samtaka rafverktaka SART, Sævar Jónsson formaður Félags blikksmiðjueigenda, Elísa Arnarsdóttir viðskiptastjóri Félags blikksmiðjueigenda, Kristján D. Sigurbergssons framkvæmdastjóri SART og viðskiptastjóri Félags pípulagningameistara og Sigurður Ágúst Arnarson vélaverkfræðingur M.Sc hjá VSÓ.