Fréttasafn



20. nóv. 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Samtök leikjaframleiðenda

Icelandic Game Fest markar tímamót í sögu tölvuleikjaiðnaðar

Í fyrsta sinn í sögu íslensks tölvuleikjaiðnaðar sameinast leikjafyrirtæki landsins á einum stað til að kynna leiki sína, bæði þá sem þegar hafa komið út og þá sem eru í vinnslu. Icelandic Game Fest 2025 fer fram laugardaginn 22. nóvember í Arena Gaming í Reykjavík kl. 12-16 og markar tímamót í sögu tölvuleikjaiðnaðarins. Á hátíðinni geta gestir prófað íslenska tölvuleiki á yfir 100 leikjatölvum, hitt hönnuðina á bak við leikina og upplifað kraft, sköpun og framtíð íslenskrar tölvuleikjagerðar með eigin augum. Viðburðurinn er opinn almenningi og aðgangur ókeypis.

Viðburðurinn verður einnig aðgengilegur á leikjasölusíðunni Steam á sérstakri „Made in Iceland“ síðu sem komið hefur verið upp af þessu tilefni. Gestir geta þannig geta kynnt sér íslenska leiki og tekið þátt í hátíðinni yfir netið auk þess sem sýnd verða viðtöl við íslenska leikjaframleiðendur beint úr myndveri á Arena Gaming þar sem þeir segja frá leikjum sínum. Þess má geta að yfir átta milljónir notenda spila á Steam á hverjum tíma.

Halldór Snær Kristjánsson, formaður IGI – Icelandic Game Industry: „Þetta er stærsti dagur íslensks tölvuleikjaiðnaðar fram að þessu, aldrei áður hafa íslensk leikjafyrirtæki sameinast með þessum hætti. Við viljum sýna almenningi, fjárfestum og samstarfsaðilum að íslensk leikjagerð er lifandi, metnaðarfull og full af hæfileikum. Viðburðurinn er mikilvægt skref í átt að auknum vexti og útflutningi íslenskra leikja.“

Daði Guðjónsson, forstöðumaður markaðssamskipta hjá Íslandsstofu: „Að sjá íslensk leikjafyrirtæki sameinast á þessum vettvangi er stórt skref fyrir greinina. Þetta er mikilvægt augnablik fyrir íslenska leikjagerð og leggur grunn að frekari markaðssókn erlendis og vexti á komandi árum.“

Á Icelandic Game Fest gefst einstakt tækifæri til að hitta íslenska leikjahönnuði, prófa nýjustu verkefnin og sjá þróunina í einni af spennandi greinum íslensks hugverkaiðnaðar.

Um viðburðinn

Icelandic Game Fest 2025 er haldið af IGI – Icelandic Game Industry í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Íslandsstofu. Markmið viðburðarins er að efla sýnileika íslensks tölvuleikjaiðnaðar, stuðla að tengslamyndun og skapa vettvang þar sem almenningur og atvinnulíf geta sameinast um að fagna íslenskri leikjagerð.

Hér er viðburðinn á Facebook.

Steam-Made-in-Iceland