Fréttasafn



13. jún. 2023 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Menntun Samtök leikjaframleiðenda

IGI og MÁ efla kennslu í tölvuleikjaiðnaði

Fulltrúar Samtaka leikjaframleiðenda, IGI, og Menntaskólans á Ásbrú, MÁ, undirrituðu í gær í Húsi atvinnulífsins samstarfssamning í því skyni að efla samstarf á milli atvinnulífs og menntastofnana í tölvuleikjagerð.

Tilgangur samningsins er að styrkja núverandi samstarf milli tölvuleikjaiðnaðarins á Íslandi og Menntaskólans á Ásbrú sem býður nemendum að stunda nám við tölvuleikjagerð. Þetta er gert með skipulögðu samstarfi milli IGI og MÁ. Helsta markmið samningsins er að veita MÁ fyrirsjáanleika í námsframboði og tengingu inn í atvinnulífið að því marki að bæta megi sértækt nám til tölvuleikjagerðar enn frekar. Samkvæmt samningnum tekur IGI að sér að bjóða fram fræðslu og aðra aðstoð sem eflir þekkingu nemenda í tölvuleikjagerð og kynnir nemendum starfsumhverfi tölvuleikjaiðnaðar. Þannig styrkir samningurinn brú milli atvinnulífs og menntunar.

Þorgeir Frímann Óðinsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda: „Tölvuleikjaiðnaður á Íslandi hefur verið í miklum blóma undanfarin ár og telur starfsfólk í iðnaðinum í dag á sjötta hundrað. Mikil vaxtatækifæri eru fyrir hendi í iðnaðinum en forsendan fyrir því að þau tækifæri raungerist er aukið framboð af hæfu starfsfólki. Þar kemur tölvuleikjabraut MÁ sterk inn og það er gaman að sjá hversu vel hefur tekist til með námsbrautina. Við vonum að sem flestir nemendur sem hafa áhuga á leikjaiðnaði kynni sér námið en ég þekki það af eigin reynslu hversu skapandi störf eru í leikjaiðnaði og hversu mörg spennandi tækifæri standa áhugasömum til boða.“

Ingigerður Sæmundsdóttir, forstöðumaður Menntaskólans á Ásbrú: „MÁ hefur boðið upp á nám í tölvuleikjagerð síðan haustið 2018 en námið er nýstárlegt. Við leggjum, auk hefðbundinna námsgreina, sérstaka áherslu á sköpun, hugmyndauðgi, forritun og verkefnastjórn, auk þess sem nemendur læra að fylgja eftir þróun tölvuleiks frá hugmynd að veruleika. Þetta býr nemendur undir störf framtíðarinnar sem breytist á ógnarhraða. Stjórnendur MÁ hafa alltaf lagt áherslu á að kennsla sé í sambandi við atvinnulífið en þessi samstarfssamningur styrkir þá brú til muna og er mikill fengur fyrir skólann.“

Myndir: BIG

Undirritun-IGI-og-MA_mynd1

Samstarfssamningur milli Samtaka leikjaframleiðenda og Menntaskólans á Ásbrú var undirritaður í Húsi atvinnulífsins. Á myndinni eru Ingigerður Sæmundsdóttir, forstöðumaður Menntaskólans á Ásbrú, og Þorgeir Frímann Óðinsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda.

Þau sem stóðu að undirbúningi samstarfsins milli Samtaka leikjaframleiðenda og Menntaskólans á Ásbrú, talið frá vinstri, Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, Baldvin Albertsson, stofnandi Vitar Games, Þorgeir Frímann Óðinsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda og framkvæmdastjóri Porcelain Fortress, Halldór Snær Kristjánsson, stofnandi Myrkur Games, Ingigerður Sæmundsdóttir, forstöðumaður Menntaskólans á Ásbrú, Eyrún Inga Einarsdóttir, fulltrúi nemenda, og Ingibjörg Lilja Guðmundsdóttir, kennari í tölvuleikjagerð. 


Viðskiptablaðið, 13. júní 2023.

mbl.is, 13. júní 2023.

Víkurfréttir, 13. júní 2023.