Fréttasafn



11. mar. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Mikill áhugi á fasteignatækniiðnaði

Mikill áhugi var á rafrænum fundi sem Samtök iðnaðarins í samstarfi við Nordic Innovation House í New York héldu í dag um fasteignatækniiðnaðinn á Íslandi en fasteignatækni (e. PropTech) er regnhlífarhugtak yfir tæknifyrirtæki sem vinna með fasteignir á einn eða annan hátt. Þróunin í nágrannalöndum okkar hefur verið sú að slík fyrirtæki myndi starfsgreinahópa eða samtök til að styrkja tengslanet og gæta hagsmuna þessara fyrirtækja. Innan Samtaka iðnaðarins eru fyrirtæki sem falla undir skilgreininguna á fasteignatækni. Um 50 manns sóttu fundinn.

  • Hjörtur Sigurðsson, framkvæmdastjóri VSB verkfræðistofu og stjórnarmaður YR, fjallaði í upphafi fundarins um hugtakið fasteignatækni og markaðinn á Íslandi. Hér er hægt að nálgast glærur Hjartar.
  • Hlynur Guðjónsson, aðalræðismaður og viðskiptafulltrúi, aðalræðisskrifstofu Íslands í New York, kynnti Nordic PropTech hjá Nordic Innovation House New York. Hann fjallaði m.a. um fasteignatæknimarkaðinn í Bandaríkjunum en áhugi fjárfesta á fasteignatæknigeiranum hefur stóraukist og tækifærin liggja víða fyrir íslensk fyrirtæki. Hér er hægt að nálgast glærur Hlyns.
  • Tasha Tolmacheva, meðstofnandi fasteignatæknisamtakanna í Finnlandi, kynnti samtökin PropTech Finland, hvernig þau urðu til og helstu hagsmunamál. Helsti tilgangur samtakanna er að aðstoða sprotafyrirtæki í greininni við að stækka og greiða leið þeirra út fyrir landsteinana. Sömuleiðis aðstoða þau fyrirtæki erlendis frá við að koma upp fyrirtækjum í Finnlandi. Hér er hægt að nálgast glærur Tasha.
  • Guðmundur Kristján Jónsson, skipulagsfræðingur og meðstofnandi Planitor, fór yfir reynslu sína af stofnun sprotafyrirtækis sem byggir þjónustu sína á opinberum upplýsingum og samstarfi við sveitarfélög og aðra opinbera aðila. Enginn miðlægur gagnagrunnur heldur utan um upplýsingar fyrir skipulags- og byggingariðnaðinn en ýmsar aðrar greinar búa við betri upplýsingagjöf og stafrænar lausnir. Það skiptir máli að auka gagnsæi og yfirsýn yfir markaðinn en mikilvægt er að markaðurinn búi yfir réttum upplýsingum til að byggja ákvarðanir á hvernig húsnæði þarf að byggja, hvar og á hvaða tíma. Í máli Guðmundar kom fram að enginn vafi sé á að það er markaður fyrir lausnina sem Planitor býður upp á en Planitor vinnur með opinber gögn tengd skipulags- og byggingarmálum, safnar þeim og tengir saman og miðlar áfram. Guðmundur fór yfir hvernig gengi að koma þessu á koppinn hér á landi en nefndi að miðlun fundargerða, sem er grunnurinn að þeim lausnum sem Planitor býður upp á, sé afgangsstærð hjá opinberum aðilum. Hann sagði gagnagrunna vera til staðar en framendar á öflugum gagnagrunnum séu illa hannaðir og útfærðir sem flækir það að nálgast upplýsingarnar og vinna með þær. Auk þess sé verklagið mismunandi milli sveitarfélaga. Tækniskuldin sé veruleg og sveitarfélögin þurfi að spýta í þegar kemur að starfrænni þróun. Hér er hægt að nálgast glærur Guðmundar.
  • Eyrún Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, var fundarstjóri og eru áhugasamir um efni fundarins hvattir til að hafa samband við hana:  eyrun@si.is.

20210311_132526_resizedTasha Tolmacheva, meðstofnandi fasteignatæknisamtakanna í Finnlandi, kynnti samtökin PropTech Finland. Á neðri myndinni má sjá Eyrúnu Arnarsdóttur, viðskiptastjóra á mannvirkjasviði SI, sem var fundarstjóri.

20210311_130710_resizedSkilgreining á fasteignatækni. 

20210311_131422_resized