Fréttasafn



3. feb. 2021 Almennar fréttir Mannvirki Samtök arkitektastofa

Mikilvægi virðisaukandi arkitektúrs

Samtök arkitektastofa, SAMARK, stóð í dag fyrir rafrænum fundi um virðisaukandi arkitektúr sem er eitt af áherslumálum félagsins. Peter Andreas Sattrup, aðalráðgjafi í sjálfbærni, hjá Samtökum arkitektastofa í Danmörku, kynnti verkefni Dana í þessum efnum. Eyrún Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, var fundarstjóri.

Virði fólgið í félagslegum gæðum og jákvæðum umhverfisáhrifum

Hvers virði er arkitektúr? – var spurningin sem Peter spurði fundargesti í upphafi. Virðið er ekki aðeins fjárhagslegt heldur einnig fólgið í félagslegum gæðum og jákvæðum umhverfisáhrifum. Peter sagði frá ýmsum dæmum sem dönsku samtökin hafa tekið fyrir og mælt virði arkitekúrs en samtökin hafa safnað saman yfir 75 slíkum tilvikum þar sem virði arkitektúrs hefur verið mælt eftir að bygging er tekin í notkun. Hann nefndi t.d. hönnun geðsjúkrahúss þar sem sjá mátti 69% fækkun tilvika þar sem þurfti að grípa inn í til að stöðva skaðlega hegðun sjúklinga og 61% minnkun á notkun róandi lyfja eftir að starfsemin flutti í nýtt húsnæði.

Virði í aukinni vellíðan fólks vegna góðrar hönnunar

Á fundinum kom fram að það er mikilvægt að meta kostnað í samhengi við þau gæði og kosti sem hönnun hefur í för með sér en gæðum er fórnað ef við greinum þau ekki og skráum. Ef vellíðan fólks eykst vegna góðrar hönnunar er það mikils virði og þarf að taka með í reikninginn – ekki eingöngu út af efnahagslegum áhrifum heldur einnig félagslegum. Peter kynnti einnig hvernig við getum unnið með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hvernig við getum lært af reynslunni í þeim efnum. 

Hér er hægt að nálgast glærur Peter Andreas Sattrup frá fundinum.

PeterPeter Andreas Sattrup, aðalráðgjafi í sjálfbærni hjá Samtökum arkitektastofa í Danmörku.

Jon-OlafurJón Ólafur Ólafsson, formaður SAMARK.