Fréttasafn24. maí 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Mörg tækifæri á Suðurnesjum

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Víkurfréttum þar sem hann segir meðal annars frá ferð stjórnar SI um Suðurnes. „Það er mikil ánægja hjá okkur sem fórum um svæðið hvað við fengum góðar móttökur. Við heimsóttum iðnfyrirtæki af ýmsum stærðum og gerðum, smá og stór, og það sem einkenndi það er einhvers konar kraftur sem við fundum mjög fyrir hjá fólki í fyrirtækjunum og einnig á fundinum sem við héldum.“

Sigurður segir í frétt Víkurfrétta að það séu mörg tækifæri til atvinnuppbyggingar og þróunar á Suðurnesjum. „Tækifæri sem vonandi verður hægt að sækja á næstu árum.“ 

Þá segir hann að það hafi komið fram í heimsóknunum til iðnfyrirtækja á Suðurnesjum að það geti verið erfitt að fá fólk til vinnu og það ráðist m.a. af lágu atvinnuleysi heilt yfir auk þess að mikill skortur sé á fólki með iðnmenntun „Við fengum einnig skýr skilaboð um að það skorti húsnæði og þá bar orkumál einnig á góma.“ 

Sigurður segir jafnframt að það hafi verið mjög skýr skilaboð um nauðsyn þess að Suðurnesjalína II verði reist sem allra fyrst. „Við tökum heilshugar undir það og fólk hér á Suðurnesjum á algjöran bandamann í okkur hvað þetta varðar.“ 

Á vef Víkurfrétta er hægt að nálgast blaðið. 

Víkurfréttir, 23. maí 2023.

vf.is, 25. maí 2023.

Mynd: Hilmar Bragi.

Vikurfrettir-23-05-2023