Vel sótt málþing um menntun og vöxt á Menntadegi iðnaðarins
Á Menntadegi iðnaðarins sem haldið var á Grand Hóteli Reykjavík í morgun var fjallað um menntun og vöxt. Málþingið var vel sótt, en tæplega 100 manns hlustuðu áhugasamir á fyrirlestra um tækifæri og möguleika í menntakerfinu.
Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir ávarpaði þingið og afhenti fimm fyrirtækjum styrki SI til kennslu á vinnstað. Fyrirtækin sem hlutu styrk að þessu sinni eru Gullkistan, Kjarnafæði, Sveinbjörn Sigurðsson, Vélaverkstæði Hjalta og Vélsmiðja Hornafjarðar.
Í þeim átta erindum sem haldin voru á þinginu var m.a. varpað upp spurningum á borð við hvernig menntakerfið geti treyst undirstöður atvinnulífsins, hvaða hlutverki skólar gegni við að byggja upp íslenskt atvinnulíf og hvort hagræðingarkrafa í menntakerfinu feli í sér tækifæri til sóknar.
Fundarstjóri var Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri MENTORS.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og Jón Steindór Valdimarsson veittu fimm fyrirtækjum styrki SI til kennslu á vinnstað. |
Í erindi sínu lagði Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri SI, áherslu á að skapa þyrfti á næstu árum störf fyrir um 35.000 manns. Hefðbundnar atvinnugreinar eins og landbúnaður, sjávarútvegur stæðu ekki undir þessari kröfu. Störfin yrðu að verða til í iðnaði og þjónustu. Forgangsraða þyrfti í menntkerfinu og lyfta undir þá menntun, sem standa skal undir verðmætasköpun í framtíðinni. Hér skiptir alls konar menntun máli, en þó sérstaklega iðn- og tæknimenntun.
Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, nefndi að lög um framhaldsskóla hafi verið sett í öðru samfélagi en því sem nú er. Nú þarf að gæta aðhalds en um leið að hugsa til vaxtar í vissum skilningi. Óhjákvæmileg hagræðing í menntakerfinu þýðir ekki endilega verri þjónustu á öllum sviðum. „Við þurfum að læra af tilraun Samtaka iðnaðarins um vinnustaðakennslu,“ sagði ráðherra. Hún vonast til þess að á næsta Menntadegi iðnaðarins verði ekki bara rætt um iðnnám á undanhaldi heldur um aðgerðir til að rétta stöðu þess.
Ingi Bogi Bogason, forstöðumaður menntunar og mannauðs hjá SI, fjallaði um hlutverk iðnmeistara og nauðsyn þess að tryggja að þekking og færni iðnmeistara sé í samræmi við kröfur markaðarins. Skilgreining á námsmarkmiðum þarf að vera í samræmi við kröfur atvinnulífsins, námskrá og námsbrautarlýsing sömuleiðis. Miklu máli skiptir að kennsla og námsefni standist gæðakröfur.
Kristrún Ísaksdóttir, deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, kynnti ný drög að
Áhugasamir þátttakendur á málþingi um menntun og vöxt. |
iðnmeistaranámskrá sem tekur við af námskrá frá 1996. Þau byggja m.a. á nýjum lærdómsviðmiðum (learning outcomes) og viðmiðaramma. Meginmarkmið iðnmeistaranámsins verður að: - að stofna og reka fyrirtæki, - að gegna stjórnunarhlutverki, - að annast skipulag og kennslu iðnnema á vinnustað.
Ferdinand Hansen, verkefnisstjóri hjá SI, greindi frá hugmyndum SI að nýju iðnmeistaranámi. Til grundvallar er lagt hlutverk iðnmeistara í bygginga- og mannvirkjagerð og þær kröfur sem gerðar eru til hans. Gæðakerfi verktaka og alþjóðlegir stjórnunarstaðlar eru notuð sem vinnutæki. Útkoman er þriggja skrefa nám. Fyrsta skrefið felur í sér meistarapróf sem þjóna á flestum iðngreinum. Annað skrefið er sértækt nám fyrir einstakar iðngreinar og iðngreinaflokka. Þriðja skrefið felur í sér byggingastjóraréttindi. Ferdinand lagði áherslu á að ekki þyrfti einungis að tryggja gæði námsins heldur gæði kennslu og námsgagna. Útkoman á að vera óumdeilanlega hæfur iðnmeistari.
Baldur Gíslason, skólameistari Tækniskólans, gerir ráð fyrir þríþrepa iðnmeistaranámi. Til sé grunnnám í rekstri og stjórnun sem iðnmeistaranám byggist síðan á. Þá hljóti menn iðnmeistararéttindi. Ofan á iðnmeistararéttindi geti menn bætt ýmsu námi, m.a. byggingastjóranámi, löggildingarnámi og námi til iðnfræðings. Að mati Baldurs þarf nýtt iðnmeistaranám að vera í takt við kröfur vinnumarkaðarins, opna leið til framhaldsnáms og að vera gæðavottað.
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, fjallaði um háskólamenntun til vaxtar. Að hans mati eru driffjaðrir hagvaxtar: fjárfesting, mannauður og tækniframfarir. Spara þarf í menntakerfinu á næstunni. Það þýðir ekki endilega að draga þurfi úr þjónustu heldur getur falist í samdrættinum kraftur til að leysa úr læðingi nýja vaxtarbrodda í menntakerfinu. Ari nefnir að við þurfum fleiri og betri háskólamenntaða. Við þurfum að vita meira um afdrif nemendanna. Hvar starfa þeir og hvernig nýtist menntun þeirra? Tengsl við atvinnulífið skipta starfsemi HR höfuðmáli. Tryggja þarf þekkingarflæði milli skóla og atvinnulífs og aldrei er meiri nauðsyn til þess að horfa til alþjóðlegs samstarfs og viðmiða en um þessar mundir.
Sigurður Ólafsson, fræðslustjóri Alcoa Fjarðaáls, greindi frá því hvernig mannauður er mótaður hjá einu stærsta og yngsta fyrirtæki landsins. Ráðnir voru 500 einstaklingar þegar atvinnuleysi var aðeins 1%. Þetta fólk skyldi myndi eina heild á stuttum tíma svo að unnt yrði að hefja framleiðslu áls. Byggja varð upp þekkingu þess og þjálfa það á örskömmum tíma. En hvernig? Sigurður segir að straumlínustjórnunarkerfi Alcoa hafi hér skipt sköpum. Starfsemi gengur í heildina vel en aldrei má sýna stöðugu umbótaferli slaka. Alltaf skal vera hægt að gera betur.
Iðunn Kjartansdóttir, sérfræðingur hjá IÐUNNI fræðslusetri, sagði frá verkefni um raunfærnimat. Það felur í sér að meta, skrá og votta færni fólks á vinnumarkaði þannig að viðkomandi geti fengið reynsluna metna inn í formlegt nám. Ávinningurinn er samfélagsins, einstaklingsins og fyrirtækisins. Alls hafa 383 einstaklingar verið raunfærnimetnir og þar af hafa 69 lokið sveinsprófi. Flestir þeirra segjast ekki hafa farið aftur í skóla ef raunfærnimatið hefði ekki komið til.
Í lok málþingsins varpaði fundastjórinn ,Vilborg Einarsdóttir, þessari spurningu út í sal: „Segið í einu orði hvað þið lærðuð hér í dag! Nefnið lykilorð.“ Salurinn hikaði ekki. Þetta var uppskeran: mannauður, gæði, samvinna, nýsköpun, engir kassar, „sam-viska“ - í merkingunni: það sem við vitum saman! - hagvöxtur, viðhorfsbreyting, hugvit + verksvit, tækifæri í ógn, breið menntun, vinnustaðakennsla.
Glærur framsögumanna
Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri SI
Störfin og menntunin
Ingi Bogi Bogason, forstöðumaður menntunar og mannauðs SI
Hlutverk iðnmeistara
Kristrún Ísaksdóttir, menntamálaráðuneytinu
Ný viðmið um iðnmeistaranám
Ferdinand Hansen, verkefnastjóri gæðastjórnunar SI
Hæfnikröfur iðnmeistaranáms
Baldur Gíslason, skólameistari Tækniskólans
Breytt iðnmeistaranám
Ari Kristinn Jónsson, rektor HR
Háskólamenntun til vaxtar
Sigurður Ólafsson, fræðslustjóri Alcoa
Mannauður mótaður
Iðunn Kjartansdóttir, sérfræðingur hjá IÐUNNI
Mannauður metinn