Fréttasafn  • Tækni- og hugverkaþing2011

11. okt. 2011

Hugvitið er næsta stórvirkjun þjóðarinnar - Samhljómur í stefnu stjórnvalda og hugverkaiðnaðar

Fulltrúar tækni-og hugverkafyrirtækja, stuðningsaðilar og alþingismenn komu saman í fjórða sinn á Tækni- og hugverkaþingi 2011, föstudaginn 7. október undir kjörorðinu ”Nýsköpun – uppspretta verðmæta“.

"Hugvitið er næsta stórvirkjun þjóðarinnar" sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra sem setti þingið og hvatti atvinnulífið og menntastofnanir landsins til dáða.

Á þinginu var fjallað um stöðu og starfsskilyrði tækni- og hugverkafyrirtækja á Íslandi og hvernig stjórnvöld, stoðkerfi og atvinnulíf geta unnið saman að því að koma nauðsynlegum umbótum í framkvæmd. Góður samhljómur var í stefnu stjórnvalda og tækni- og hugverkaiðnaðar og fátt ætti því að vera til fyrirstöðu að hrinda áhersluverkefnum í framkvæmd. 

Talsvert skortir þó á að Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2012, endurspegli þennan samhljóm. Ekkert er t.d. að finna í fjárlögum um markáætlun um klasaverkefni um „betri þjónustu fyrir minna fé“. Engin merki eru heldur um að efla Tækniþróunarsjóð. 

„Við skulum láta athafnir fylgja orðum - göngum samhent til þeirra verka sem framundan eru“ sagði iðnaðarráðherra. Aðstandendur Tækni- og hugverkaþings vona að slíkar athafnir og samheldni nái fram að ganga í  fjárlagafrumvarpinu 2012 á áður en það verður að lögum.

Í aðdraganda Tækni- og hugverkaþings 2011 var unnið nýtt stefnumótunarstarf og skilgreind áhersluverkefni til ársins 2016. Þessi stefnumótun var kynnt á þinginu og áhersluverkefni lögð fram í nefndum þingsins til umræðu.

Hugvitið er næsta stórvirkjun þjóðarinnar 

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra sagði starfsskilyrði atvinnulífsins væru sannarlega mikilvægt og viðvarandi verkefni stjórnvalda. Í því efni  skiptir fyrirkomulag peninga- og gengismála sköpum. Króna sem innpökkuð er í gjaldeyrishöft út á við og varin af verðtryggingu innávið er ekki góður kostur til framtíðar.

Jóhanna sagði stjórnvöld gegna lykilhlutverki er varðar rannsóknir og þróun. Með fækkun og sameiningu  sjóða og einföldun á yfirbyggingu næst mikilsverður áfangi og aukin áhersla á faglega úthlutun fjármagns. Fyrirliggjandi úttektir á Tækniþróunarsjóði sýna að það er samfélagslega arðbær fjárfesting að auka framlög til sjóðsins. Til framtíðar horfum við til Auðlindasjóðs sem gjöfullar lindar fjármagns til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar. Í Auðlindasjóð mun renna arður af auðlindum í þjóðareign, en  Jóhanna væntir þess að tillaga að stefnu í auðlindamálum og um stofnun sjóðsins verði kynnt fyrir árslok.

Þá væri nauðsynlegt væri að fjárfesta í menntun, enda um 30% þjóðarinnar án framhaldsskólamenntunar og þar er sérstaklega slagsíða er varðar iðn- og tæknimenntun. Markmiðið er skýrt að hér verði til fjölbreytt og vel launuð störf sem standast alþjóðlegan samanburð og að ungir Íslendingar þurfi aldrei að velkjast í vafa um að framtíð þeirra er best  borgið á Íslandi. Óhikað sagði hún að hugvitið ætti að verða okkar næsta stórvirkjun.

Nýsköpun og rannsóknir

Nýsköpun á vettvangi háskóla er venjulega skilgreind sem yfirfærsla þekkingar er byggir á rannsóknum og felur í sér útfærslu eða þróun vöru, þjónustu, ferla eða aðferða í því skyni að skapa verðmæti sagði Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands. Áherslur Háskóla Íslands á nýsköpun og grunnrannsóknir fari vel saman enda eru öflugar grunnrannsóknir sem standast strangar alþjóðlegar gæðakröfur ein lykilforsenda nýsköpunar. Háskóli Íslands hafi nýlega markað sér stefnu fyrir árin 2011 – 2016 þar sem lögð er rík áhersla á rannsóknir og nýsköpun. Starfsmenn séu með margvíslegum hætti hvattir til að hagnýta rannsóknaniðurstöður sínar þegar það eigi við. Háskólinn muni á næstu árum að fjölga sprotafyrirtækjum sínum, einkaleyfisumsóknum og samningum við fyrirtæki um hagnýtingu, en mörg sprotafyrirtæki hafi verið stofnuð innan HÍ á undanförnum árum var meðal þess sem fram kom í máli Jóns. "Það er Háskóla Íslands kappsmál að taka virkan þátt í atvinnuuppbyggingu í íslensku samfélagi með nýsköpun í krafti nýrrar þekkingar sem grundvallast á öflugri og fjölbreyttri rannsóknastarfsemi skólans."  

Hvað er tækni- og hugverkaiðnaður?

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins svaraði í sínu erindi spurningunni – hvað er tækni- og hugverkaiðnaður og hvernig hann tengdist öðrum atvinnugreinum. Hugverkafyrirtæki byggja á hugverki á grunni nýsköpunar, þróunar, tækni, hönnunar, sérstöðu eða tengsla. Lykilatriðið er að verðmætasköpun fyrirtækisins byggir á þekkingarauðlindum fremur en nýtingu náttúruauðlinda. Hann nefndi Texas sem dæmi þar sem vagga olíuiðnaðar hefði verið og þrátt fyrir að nú væru allar olíulindir Texas tæmdar væri þar enn ein helsta miðja þekkingar og tækni í olíuvinnslu í heiminum.    

Orri gerði einnig skort á hæfu starfsfólki í þessum greinum að umtalsefni og segir nauðsynlegt að auka menntun í tæknigreinum, bæði iðngreinum og bóklegum.

Við skulum láta athafnir fylgja orðum  

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra sagði að öfluga nýsköpun algera forsendu þess að við getum byggt hér upp sterkt, kraftmikið og gott samfélag. Endurnýjunarkrafa nútímans væri einfaldlega svo sterk að samfélög sem ekki taka nýsköpun og frumkvöðlastarf alvarlega eru dæmd til að dragast aftur úr í samanburði þjóðanna. 

Iðnaðarráðherra nefndi þrjú aðkallandi verkefni sem hún telur brýnt að stjórnvöld vinni að á næstunni til að tryggja að fyrirtæki geti vaxið hér á landi en fari ekki úr landi. Í fyrsta lagi aðgengi að sérhæfðu og menntuðu starfsfólki. Í öðru lagi nákvæmari hagtölur og að síðustu að taka upp evru sem gjaldmiðil.

Öflugur og þróttmikill tækni- og hugverkaiðnaður er forsenda þess að við getum svarað kalli tímans. Iðnaðarráðherra lauk máli sínu með því að segja;  „Við skulum láta athafnir fylgja orðum – göngum samhent til þeirra verka sem framundan eru“. 

Skortur á tölfræðigögnum 

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI fjallaði og tölfræði tækni- og hugverkaiðnaðarins. Í máli hans kom fram að mikill skortur á gögnum sem lýsa stöðu og þróun greinarinnar sem gerir alla greiningu, markmiðssetningu og árangursmat erfitt. Vandasamt sé að afla upplýsinga um fjölda starfandi, veltu o.fl. þátta og mikilvægt að Hagstofunni verði gert kleift að safna nákvæmari upplýsingum um starfssemi fyrirtækja.

Tölur um vöruútflutning benda til að góður vöxtur hafi verið undanfarin ár í fjölbreyttari vöruflokkum en áður. Tölur um þjónustuútflutning benda hins vegar til þess að samdráttur hafi verið árið 2010 m.v. árið á undan í útflutningi á hugbúnaði og skyldum afurðum. Hins vegar sé þetta ekki samræmi við fregnir af góðum árangri fyrirtækja í þessum flokki og því vakna upp spurningar hvort gjaldeyrishöft og hár viðskiptakostnaður sé að valda því að ekki allar tekjur séu að skila sér heim. 

Vaxtarsprotar

Pétur Pétusson, stjórnamaður í Mentor og Sigríður Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Roche Nimblegen á Íslandi fóru yfir sögu fyrirtækjanna en bæði fyrirtæki hafa náð miklum árangri hér heima og erlendis.

Áhersluverkefni tækni- og hugverkagreina

Svana Helen Björnsdóttir, forstjóri Stika og formaður SSP gerði grein fyrir niðurstöðum stefnumótunar tækni- og hugverkagreina þar sem skilgreind voru áhersluverkefni til ársins 2016. En framtíðarsýn greinanna má lýsa í þremur setningum:

1.    Tækni- og hugverkaiðnaður - grunnstoð í íslensku atvinnulífi

2.    Aðlaðandi Ísland - miðstöð tækni- og hugverkaiðnaðar

3.    Jákvæður viðskiptajöfnuður á grunni aukins útflutnings og sjálfbærni í greininni

Megin forsendur til að þessi árangur geti náðst eru:

1.    Nægt framboð á hæfu starfsfólki – „gott fólk gulli betra“ 

2.    Fyrirmyndar starfsumhverfi og stoðkerfi.

3.    Markvisst markaðsstarf - Inspired by Icelandic Innovation

4.    Fjármögnunarumhverfi í fremstu röð

Svana kynnti síðan þau áhersluverkefni sem komu út út stefnumótuninni og lögð voru til grundvallar í nefndarstarfi Tækni- og hugverkaþingsins.

Ísland 2020

Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur í forsætisráðuneytinu gerði grein fyrir stefnumörkuninni Ísland 2020 sem er framtíðarsýn sem varð til í samtölum og samvinnu hundruða Íslendinga um land allt og samráði við landshlutasamtök, sveitarfélög, verkalýðshreyfingu og samtök í atvinnulífi. Markmið starfsins var að setja fram sýn sem með hlutlægum markmiðum myndi stuðla að því að Ísland yrði í fararbroddi annarra þjóða í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífsgæðum.

Ráðherranefnd í atvinnumálum

Sigurður Snævarr, efnahags- og atvinnuráðgjafi forsætisráðherra tók síðastur framsögurmanna til máls fjallaði um tillögur ráðherranefndar í atvinnumálum. Tillögurnar eru 10 talsins: 

Matur sem meginstoð í atvinnusköpun; Tækniþróunarsjóður efldur í 4 milljarða; Grænn samkeppnissjóður; Lagasetning til að koma í veg fyrir eignarhald banka á gjaldþrota fyrirtækjum; Iðnaðarklasi; Iðnaðargróðurhús; Skattfrádráttur vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum; Virðisaukning sjávarafla með aukinni vinnslu innanlands; “Inspired by Icelandic Innovation“; Samkeppnissjóðir um betri þjónustu fyrir minna fé

Níu tillögur ræddar í þingnefndum

Að loknum framsögum hófst meginkjarni þingsins þegar þátttakendur tóku til starfa í þingnefndnum níu. Í þingnefndum voru lagðar fram tillögur um áhersluverkefni og aðgerðir til að bæta starfsskilyrði tækni- og hugverkafyrirtækja sem eiga erindi við stjórnvöld og Alþingi.

Þegar þingnefndir höfðu lokið starfi sínu söfnuðust þátttakendur aftur saman í aðalsal og málshefjendur hverrar tillögu gerðu grein fyrir niðurstöðum.

Þingnefndartillögur

Tillaga 1: Samstarfsvettvangur hugverkagreina – samstarf við stjórnvöld og þingflokka – eitt atvinnuvegaráðuneyti

Tillaga 2: Bætt hagtölugerð tækni- og hugverkagreina

Tillaga 3: Tækniþróunarsjóður efldur í 4 milljarða - Styrkir til markaðsstarfs erlendis – efling Brúarstyrkja

Tillaga 4: Menntastefna til stuðnings atvinnustefnu – markvissara iðn- og tækninám

Tillaga 5: „Inspired by Icelandic Innovation“ – markaðsstarf erlendis og vitundarvakning um áhrif ímyndar fyrir útflutning

Tillaga 6: Laða hæfileikaríkt fólk til starfa á Íslandi – hvatar t.d. í skattkerfinu

Tillaga 7: Skattaafsláttur v. hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum eða sjóðum - Skipulögð miðlun/markaður hlutabréfa minni fyrirtækja

Tillaga 8: Hluti fjárlagaliða heilbrigðis- og velferðamála, menntamála, orku- og umhverfismála og niðurgreiðslna veitt í samkeppnissjóði og klasasamstarf um „betri lausnir/þjónustu fyrir minna fé“

Tillaga 9: Höfuðstöðvar útflutningsfyrirtækja á Íslandi – draga úr áhrifum gjaldeyrishafta á útflutning frá Íslandi.

Sjá þingnefndartillögur

Nýsköpun lykillinn að framtíðinni

Viðfangsefni í starfs- og stuðningsumhverfi tækni- og hugverkafyrirtækja eru þess eðlis að þau krefjast samstarfs fyrirtækjanna og samtaka þeirra, stjórnvalda og annarra stuðningsaðila. Slíkt samstarf hefur verið með ýmsum hætti hér á landi á undanförnum árum en með Hátækni- og sprotavettvangi hefur verið unnið að því að gera það skilvirkara. Orri Hauksson sleit Tækni – og hugverkaþingi með því að færa fulltrúum alþingis níu blöðrur, eina fyrir hvert verkefni, með þeim orðum að þeim skyldi haldið á lofti með áframhaldandi samstarfi. Þá var öllum þátttakendum þingsins færð að gjöf lyklakippa sem pípir þegar flautað er á hana til áminningar um að týna ekki lyklinum – nýsköpun - að framtíðinni.

Ef vel er að verki staðið geta þær umbætur sem ræddar verða á Tækni- og hugverkaþingi skilað því að tækni- og hugverkaiðnaður verði ein meginstoð hagvaxtar á Íslandi á komandi árum og sú leið sem best getur tryggt lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum háa ávöxtun í framtíðinni. Grunnur að þessari uppbyggingu felst í að á Íslandi geti fjölbreytt flóra arðvænlegra tækni- og hugverkafyrirtækja vaxið og dafnað í starfsumhverfi í fremstu röð.

 

Tækni- og hugverkaþing 2011 er það fjórða í röð sambærilegra þinga sem haldin hafa verið annað hvert ár frá 2005. Tilgangurinn er að koma á beinum samskiptum stjórnenda fyrirtækja og þeirra aðila sem hafa áhrif á starfsskilyrði tækni- og hugverkafyrirtækja á Íslandi, ekki síst þeirra sem fara með löggjafarvaldið. Kjarni þinganna eru þingnefndarfundir þar sem umræða fer fram um afmarkaða þætti í starfsskilyrðum fyrirtækjanna og hvernig megi koma áhersluverkefnum til umbóta í framkvæmd.

Þingið var haldið í tengslum við European SME Week 2011 í samstarfi Samtaka iðnaðarins, Hátækni- og sprotavettvangs, þingflokka stjórnmálaflokka, ráðuneyta iðnaðar, utanríkis, mennta- og fjármála, háskóla og aðila stoðkerfis og atvinnulífs.