Fréttasafn  • skapandi iðngrein2013

1. mar. 2013

Mikill hugur í málm- og véltækniiðnaðnum

Samtök málm- og véltæknifyrirtækja  – MÁLMUR –  ásamt Samtökum iðnaðarins gengust fyrir ráðstefnu síðasta dag febrúarmánaðar.Þar var greint var frá helstu viðfangsefnum innan greinarinnar og ný mótaðri stefnu sem unnið verður eftir næstu fimm árin og miðar að því efla íslenskan málmiðnað til enn stærri átaka og meiri samkeppni á alþjóða markaði. 

Á ráðstefnunni var bent á að ábyrgir aðilar hafa haldið því fram að eina leiðin til að bæta kjör landsmanna og styrkja velferðarþjónustuna sé að auka verðmætasköpunina. Sömu aðilar láta þess jafnframt getið að þetta markmið náist því aðeins að takast megi að stórefla tæknigreinar þessa lands enda hefur þegar verið sýnt fram á að þær geta vaxið á alþjóðamarkaði ef vel og skipulega er staðið að málum.

Það hefur málm- og véltækniiðnaðurinn einmitt gert undanfarin ár og á fyrir skömmu var lokið við að móta nýja framtíðarsýn til ársins 2017.  Þar er stefnt að því að greinin muni þá gegna lykilhlutverki í íslensku atvinnulífi og verða ein helsta grunnstoð þjóðfélagsins.  Þessi sýn var kynnt á umræddri ráðstefnu ásamt því sem vinna þarf að til að hún verði að veruleika árið 2017.  Gerð var grein fyrir átta verkefnum sem unnið verður skipulega að næstu árin af hálfu hagsmunasamtakann, fyrirtækjanna og opinberra aðila sem koma að einstökum málaflokkum.  Þá var farið yfir væntanleg viðbótarverkefni fyrir málmiðnaðinn sem framundan eru ef hugmyndir þar um ganga eftir.  Talsverður tími fór svo í að ræða ýmislegt sem snertir iðn- og tækninám í málm- og véltæknigreinum og hvernig á að auka áhuga unga fólksins á slíku námi í framtíðinni. Ljóst er að eftirspurn eftir lærðu fólki á þessu sviði mun aukast gríðarlega næstu árin. Því eru mikil verkefni framundan til að stuðla að því að þeirri þörf verði mætt.

Hér má nálgast kynningar fyrirlesara:

Viðfangsefni skapandi iðngreinar - Ingólfur Sverrisson, Málmur/SI

Stefna MÁLMS - þróun greinarinnar - Davíð Lúðvíksson, SI

Orkuvirki og útflutningur orku - Óli Grétar Sveinsson, Landsvirkjun

Verkefni á Grænlandi - Kolbeinn Kolbeinsson, Ístak

Mannaflaþörf í málm- og véltæknigreinum - Gylfi Einarsson

Að auka áhuga ungmenna á iðnnámi - Katrín Dóra Þorsteinsdóttir, SI

Góð iðnmenntun - Þórður Theódórsson, Marel

Virk endurmenntun - Kristján Kristjánsson, Málm- og véltæknisvið IÐUNNAR

Á fundinum var nýjum bæklingi um framtíðarsýn málm- og véltækniiðnaðar dreift.

Nálgast má bæklinginn á pdf hér.