Ný stjórn Samtaka menntatæknifyrirtækja
Ný stjórn Samtaka menntatæknifyrirtækja, IEI, var kosin á aðalfundi samtakanna sem fór fram í Húsi atvinnulífsins í gær. Íris E. Gísladóttir, stofnandi og rekstrarstjóri Evolytes, var endurkjörin formaður og aðrir í stjórn eru Hinrik Jósafat Atlason, framkvæmdastjóri Atlas Primer, Jón Gunnar Þórðarson, stofnandi og framkvæmdastjóri Bara tala, Heiðar Ingi Svansson, framkvæmdastjóri Iðnú, Guðmundur Axelsson, tæknistjóri Beedle og Helgi Sigurður Karlsson, framkvæmdastjóri Beanfee. Varamenn eru Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri InfoMentor, og Kristrún Birgisdóttir, framkvæmdastjóri AIS ehf.
Samtökin fagna tveggja ára starfsafmæli og hafa sett sér það markmið að efla nýtingu menntatækni í samfélaginu til hagsbóta fyrir nemendur, kennara og atvinnulífið. Átta ný fyrirtæki gengu til liðs við samtökin á síðasta starfsári og tvö fyrirtæki hættu aðild.
Á fundinum var greint frá mikilli ánægju með störf IEI á undanförnum tveimur árum. Þar kom fram að samtökin hafi lagt áherslu á að stuðla að aukinni meðvitund um mikilvægi menntatækni sem hafi skilað sér í framþróun sem efli meðal annars læsi, STEAM-menntun, íslenskan orðaforða nýrra Íslendinga og áhuga barna á námi. Jafnframt var fjallað um áskoranir sem fyrirtæki í menntatækni standa frammi fyrir. Sérstaklega var bent á skort á skilvirkri innleiðingu menntatækni í íslenskt skólakerfi, sem setur nýsköpunarfyrirtæki í óhagstæðari stöðu samanborið við nágrannalönd. Í ljósi þessa vilja samtökin vekja athygli á nauðsyn þess að bæta rekstrarumhverfi menntatæknifyrirtækja hér á landi og efla stuðning við nýsköpun á þessu sviði.
Hér er hægt að nálgast ársskýrslu Samtaka menntatæknifyrirtækja.
Hinrik Jósafat Atlason, Brynja Baldursdóttir, Heiðar Ingi Svansson, Kristrún Birgisdóttir, Íris E. Gísladóttir, Jón Gunnar Þórðarson og Helgi Sigurður Karlsson.