Fréttasafn



19. nóv. 2024 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Ólík sýn flokkanna í skattamálum

Ólík sýn í skattamálum endurspeglast í svörum þeirra átta flokka sem tóku þátt í kosningafundi SI undir yfirskriftinni Hugmyndalandið. Mestur munur er á svörum þeirra þegar spurt er um skattamál.

Vinstri græn eru eini flokkurinn sem ætlar ekki að draga úr byrðum á fyrirtæki í formi skatta og gjalda. Viðreisn, Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Samfylking áforma að draga úr byrðum á fyrirtæki en Framsókn, Flokkur fólksins og Píratar vilja ekki svara.

Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Samfylking áforma að lækka eftirlits- og þjónustugjöld opinberra aðila. Vinstri græn ætla ekki að gera slíkt. Framsókn, Viðreisn, Flokkur fólksins og Píratar vilja ekki svara.

Viðreisn og Miðflokkur áforma að lækka tryggingagjald. Samfylking og Vinstri græn áforma ekki að lækka tryggingagjald. Framsókn, Sjálfstæðisflokkur, Flokkur fólksins og Píratar vilja ekki svara hvort þeir áformi að lækka tryggingagjald.

Þrír flokkar vilja ekki svara því hvort þeir áformi að hækka tryggingagjald, það eru Framsókn, Flokkur fólksins og Píratar. Aðrir flokkar áforma ekki að hækka tryggingagjald.

Vinstri græn einn flokka áformar að hækka tekjuskatt fyrirtækja og Framsókn kýs að svara ekki. Aðrir flokkar áforma ekki að hækka tekjuskatt fyrirtækja.

Samfylking, Vinstri græn og Píratar áforma að hækka fjármagnstekjuskatt á næsta kjörtímabili. Framsókn, Viðreisn, Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur áforma ekki slíka hækkun og Flokkur fólksins svarar ekki til um slík áform. 

Tveir flokkar, Vinstri græn og Píratar, áforma að leggja á eignaskatta. Allir aðrir flokkar áforma það ekki. 

 

Skattar

Hér er hægt að nálgast niðurstöður fleiri spurninga sem lagðar voru fyrir flokkanna.

 

Skiptar skoðanir um skatta

Í umræðum á kosningafundi SI um skattamál segir Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsókn, að aðalverkefnið nú væri að taka á verðbólgu og ná niður vöxtum í kjölfarið. „Er þá gáfulegt fyrir stjórnmálaflokk að koma með yfirlýsingar um að lækka skatta, lækka gjöld? Nei, það er það ekki.“ Kristrún Frostadóttir, Samfylking, segir að við getum ekki haldið áfram að stunda stjórnmál þar sem fólk segir: „Ég ætla að byggja þessa brú, ég ætla að malbika þennan veg, ég ætla að ýta undir verðmætasköpun, auka útgjöld og lækka gjöld á þig og vexti og verðbólguna. Og svo skilur enginn af hverju það gerist ekki neitt.“ Hún segir að það sé ekki hægt að fara í stórfellda stafvæðingu eða innviðauppbyggingu án þess að borga fyrir það með einhverjum hætti. „Og við höfum talað fyrir almennum auðlindagjöldum. Vegna þess að þá ertu að taka fókusinn af einhverri einni grein og vera að kenna henni um allt og vera rosalega neikvæð eins og hefur svolítið verið um sjávarútveginn. Og frekar að segja, heyrðu það eru aðrar reglur í auðlindagreinum. Það er auðlindarenta, auðlindaskattar eru hagkvæmustu skattar sem til eru vegna þess að þeir brengla ekki framleiðsluþættina.“ Hún segir að Samfylking hafi talað líka um orkuskatt sem feli í sér að það sé hægt að deila ákveðinni arðsemi sem skapast við orkuframleiðslu með nærumhverfinu. Um fjármagnstekjuskattinn segir hún að það sé einfaldlega þannig í dag að þeir sem að eigi og lifi á miklum fjármagnstekjum þeir séu að borga miklu, miklu lægri virka skattheimtu en venjulegt vinnandi fólk. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Miðflokki, segir að fyrsta skrefið sé kannski að menn átti sig á því hvernig skattarnir raunverulega virka, til dæmis fjármagnstekjuskattur. „Ég er ekkert viss um að allir hér geri sér grein fyrir hvernig fjármagnstekjuskattur er reiknaður gagnvart þeim sem eru einyrkjar, til að mynda, eða reka ehf félög. Það er bara talað um ehf gatið. Þegar að menn þurfa fyrst auðvitað að borga tekjuskatt fyrirtækisins og svo fjármagnstekjuskattinn ofan á það.“ Hann segir að fjármagnstekjuskattur sé ekki reiknaður af raunávöxtun heldur af nafnávöxtun.

Hér er hægt að nálgast umræðu um skatta á kosningafundi SI:

https://vimeo.com/1031174969

 

Formenn og fulltrúar átta flokka tóku þátt í umræðum á kosningafundi SI í Silfurbergi í Hörpu. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, stýrði umræðunum.