Fréttasafn4. jún. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Opinberir aðilar fari eftir lögum og bjóði LED-væðingu út

Nýlegir úrskurðir um að Reykjavíkurborg hafi brotið útboðslög voru til umfjöllunar í Bítinu á Bylgjunni. Rætt er við Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, og Magnús Júlíusson frá Íslenskri orkumiðlun.

Jóhanna Klara segir að mál Samtaka iðnaðarins snúist um tvo þætti: „Við vorum annars vegar að gera kröfu um úboð hjá borginni þegar kemur að LED-væðingu götulýsinga sem er einskiptisaðgerð og hins vegar vorum við líka að gera kröfu um útboð á almennu viðhaldi og rekstri á kerfinu, að það sé hugsað vel um ljósastaurana okkar.“ Hún segir áætlaðan kostnað við LED-væðing hjá borginni bara á þessu ári séu 300 milljónir króna en áætlaður kostnaður fyrir 2021 til 2025 séu 2,8 milljarðar. „Þetta eru miklar upphæðir og hingað til hafa þessi verkefni farið beint til Orku náttúrunnar án útboðs. En við teljum það alveg skýrt eftir þennan úrskurð að það á að bjóða þetta út.“ Hún segir að Reykjavíkurborg kaupi búnaðinn. „Við erum bara að tala um vinnu.“

Þegar Jóhanna Klara er spurð hvort þetta mundi leiða til þess að verkið yrði ódýrara og mundi borga sig fyrir borgarbúa svara hún: „Við verðum í fyrsta lagi að gera kröfu til opinberra aðila að þeir fari eftir lögum, það skiptir máli. Niðurstaðan hérna er að svo er ekki, það á að bjóða þetta út. Við erum með þetta kerfi til að stuðla að heilbrigðum samkeppnismarkaði og gagnsæi. Við verðum bara að gera þá kröfu. Þetta kerfi er sett upp til að tryggja besta verðið.“

Einkaaðilar fullfærir að sinna þessu verkefni

Jóhanna Klara segir að það séu aðilar sem treysti sér til að bjóða í verkið. „Þess vegna fórum við hjá Samtökum iðnaðarins af stað vegna þess að við erum með Samtök rafverktaka hjá okkur. Það eru einkaaðilar sem eru fullfærir um að sinna þessu verkefni og gera það raunverulega annars staðar á landinu.“

Jóhanna Klara segir að það sé sérstakt að markaðurinn þurfi að hafa eftirlit með opinberum aðilum. „Reykjavíkurborg er að reka fyrirtæki á samkeppnismarkaði en það þarf samt að hafa eftirlit með þessu.“ Hún segir að umræðan í borgarstjórn um málið hafi verið óljós. „Við áttuðum okkur ekki á hvort Reykjavíkurborg ætlar að hlýta niðurstöðunni.“ Hún segir að áskorun hafi verið send á Reykjavíkurborg þar sem skorað var á þau að bjóða verkefnið út. „Í það minnsta að veita okkur svör hvers er að vænta því markaðurinn þarf að undirbúa sig. Þetta eru verkefni sem við höfum ekki áður tekið þátt í að vinna.“ Jóhanna Klara segir að borgin hafi ekki gefið út hvort hún ætli að hlýta úrskurðinum. „Við bíðum bara.“

Kostnaður við LED-væðingu ljósastjóra um 6 milljarðar

Jóhanna Klara segir að þetta sé ekki bara Reykjavíkurborg sem hefur ekki verið að bjóða út verkefni í LED-væðingunni. „Orka náttúrunnar er með rekstur á 50 þúsund ljósastaurum á höfuðborgarsvæðinu, það er Reykjavíkurborg, Kópavogur, Mosfellsbær, Seltjarnarnes og Akranes. Vegagerðin hefur líka verið að gera þetta.“ Hún segir að kostnaður við LED-væðinguna í heild sinni sé um 6 milljarðar. og hafi ekki átt að fara í útboð. „Í Reykjanesbæ er þetta í höndum einkaaðila og gengur vel. Þeir eru fullfærir um að sinna þessu verkefnum.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

Bylgjan, 3. júní 2021.

Bylgjan-03-06-2021Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, og Magnús Júlíusson frá Íslenskri orkumiðlun.