Fréttasafn



24. jan. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki

Rétti tíminn til að fara í opinberar framkvæmdir

Það er ekki aðeins nauðsynlegt að ráðast í framkvæmdir heldur er rétti tíminn til þess núna. Íslenskt hagkerfi hefur kólnað eftir mikinn vöxt undanfarinna ára. Launþegum í mannvirkjagerð hefur fækkað í fyrsta sinn í mörg ár. Með fjárfestingum er byggt undir hagvöxt framtíðar og því er rétt við þessar aðstæður að auka opinberar fjárfestingar, bæði vegna þess að það er skynsamlegt í efnahagslegu tilliti og verkefnin eru sannarlega næg eins og við þekkjum. Þetta sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í setningarávarpi sínu á Útboðsþingi SI sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík í gær. 

Sigurður sagði sannarlega verk að vinna. „Haustið 2017 gáfu Samtök iðnaðarins í samstarfi við Félag ráðgjafarverkfræðinga út skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi. Skýrslan hefur nýst vel en hún var fyrsta heildstæða samantektin um málefnið. Niðurstöðurnar komu ef til vill ekki á óvart með hliðsjón af því að innviðir landsins voru fjársveltir um árabil og skuldum þannig velt yfir á framtíðina. Uppsöfnuð viðhaldsþörf var metin 372 milljarðar króna, mest í vegakerfinu og flutningskerfi raforku. Þetta er fyrir utan nýframkvæmdir. Sem betur fer hafa stjórnvöld tekið við sér og forgangsraðað í þágu innviðauppbyggingar. Meira þarf til.“

Þá nefndi Sigurður samkeppnishæfni Íslands sem hann sagði vera nokkurs konar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum. „Þeim mun meiri sem samkeppnishæfnin er, þeim mun meiri verðmæti verða til og þar með verður meira til skiptanna. Efnislegir innviðir eru ein af fjórum undirstöðum framleiðni og samkeppnishæfni og því hafa Samtök iðnaðarins talað mjög ákveðið fyrir viðhaldi þeirra og frekari uppbyggingu.“

Si_utbodsfundur_grand_hotel_2020-3Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.