Fréttasafn



2. mar. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki Starfsumhverfi

Samtök iðnaðarins fagna átaki í innviðafjárfestingum

Samtök iðnaðarins fagna þeim skrefum í átt til aukinna innviðaframkvæmda sem felast í því átaki sem ríkisstjórnin hefur kynnt. Um er að ræða vandaða vinnu þar sem stjórnvöld nálgast í fyrsta sinn innviðina á heildstæðan hátt. Fagna Samtök iðnaðarins því sérstaklega. Samtökin benda samt á að betur má ef duga skal í þessum efnum. Mikil uppsöfnuð þörf er fyrir fjárfestingar í innviðum eftir litla fjárfestingu hins opinbera í þeim á síðustu árum. 

Átak ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í lok síðustu viku byggir á niðurstöðum vinnuhóps sem ríkisstjórnin skipaði eftir fárviðri sem gekk yfir landið í desember sl. Gerði átakshópurinn aðgerðaáætlun vegna uppbygginga innviða til ársins 2030 með nýjum og fyrirliggjandi aðgerðum í áætlunum ríkis og sveitarstjórna. Einnig er um að ræða aðgerðir sem verður flýtt en þær hljóða upp á um 27 ma.kr. í ofanflóðavörnun sem og flutnings- og dreifikerfi raforku.

Kjöraðstæður fyrir innviðafjárfestingar

Innviðir hagkerfisins móta samkeppnishæfni íslensks efnahags- og atvinnulífs og eru lífæðar samfélagsins sem saman mynda órjúfanlega heild. Íslenska hagkerfið byggir verðmætasköpun sína að stórum hluta á innviðum og því er það þjóðaröryggismál að þeim sé sinnt sem skyldi.

Nú eru kjöraðstæður til að fara í innviðafjárfestingar. Með átaki á þessu sviði er bæði dregið úr niðursveiflunni í efnahagslífinu og byggt undir hagvöxt litið til framtíðar. Í skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga um innviði hér á landi sem kom út 2017 kemur fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða hafi verið um 370 ma.kr. eða sem nemur 15% af vergri landsframleiðslu. Þörfin var þar metin mest í vegagerð, fasteignum ríkisins, fráveitum og orkuflutningum. Bentu SI þá á að brýn þörf væri að fara í innviðaframkvæmdir og að kjöraðstæður væru að myndast í efnahagslífinu til að gera stórátak á því sviði.

Frá þeim tíma sem skýrsla samtakanna var birt hefur umræðan um þörfina fyrir innviðaframkvæmdir breyst og auknum fjármunum hefur verið varið til innviðauppbyggingar af hálfu hins opinbera. Enn er uppsöfnuð viðhaldsþörf hins vegar umtalsverð og fjármunir sem varið er til málaflokksins ekki nægir að mati Samtaka iðnaðarins.