Fréttasafn



15. des. 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Fréttatilkynning

Samtök iðnaðarins fagna heildarendurskoðun hlutdeildarlána

Samtök iðnaðarins (SI) fagna fyrirhuguðum breytingum á lögum um húsnæðismál sem lúta að hlutdeildarlánum og telja frumvarpið mikilvægt skref í átt að fyrirsjáanlegra og skilvirkara kerfi. Þetta kemur fram í umsögn SI. Frumvarpið er nú til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis. Markmið frumvarpsins er að endurskoða fyrirkomulag hlutdeildarlána í heild sinni með það að leiðarljósi að efla trúverðugleika kerfisins og tryggja að það nýtist betur bæði kaupendum og þeim aðilum sem koma að uppbyggingu húsnæðis. Samtök iðnaðarins hafa ítrekað bent á að annmarkar á núverandi fyrirkomulagi hafi dregið úr virkni úrræðisins og takmarkað getu þess til að ná settum markmiðum.

Skortur á fyrirsjáanleika hefur hamlað virkni kerfisins

Hlutdeildarlán eru ætluð einstaklingum sem kaupa sína fyrstu íbúð eða hafa ekki átt íbúð síðustu fimm ár og hafa greiðslugetu til að standa undir afborgunum húsnæðislána en skortir eigið fé til útborgunar. Upphaflega var gert ráð fyrir að veitt yrðu 400–500 hlutdeildarlán árlega, en raunveruleg þróun hefur verið önnur.

Frá því lánveitingar hófust undir lok árs 2020 hafa að jafnaði aðeins verið veitt um 180 lán á ári. Heildarútlán nema um 11,8 milljörðum króna, sem er langt undir þeim 40 milljörðum sem upphafleg áform gerðu ráð fyrir. Helstu ástæður þessa eru skortur á íbúðum sem uppfylla skilyrði úrræðisins og það að hámarksverð hefur hvorki fylgt þróun íbúðaverðs né hækkandi byggingarkostnaði. Samtökin leggja því ríka áherslu á að tryggður verði fyrirsjáanleiki í úthlutunum og fjármögnun hlutdeildarlána. Skortur á fyrirsjáanleika hefur ekki síst dregið úr áhuga byggingaraðila á að ráðast í uppbyggingu hagkvæms íbúðarhúsnæðis sem fellur að skilyrðum kerfisins.

Mikilvægt að styðja við framboð nýs húsnæðis

Samtök iðnaðarins ítreka jafnframt mikilvægi þess að hlutdeildarlán verði áfram fyrst og fremst bundin við nýbyggingar og breytingu atvinnuhúsnæðis í íbúðir. Slík afmörkun er lykilatriði til að tryggja að úrræðið stuðli að raunverulegri aukningu framboðs á húsnæðismarkaði. Aðgerðir sem eingöngu auka eftirspurn án samsvarandi aukningar í framboði hafa ítrekað leitt til hækkunar fasteignaverðs. Í því ljósi er sérstaklega mikilvægt að hlutdeildarlán séu hönnuð sem framboðshvetjandi úrræði. Greiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sýna jafnframt að fermetraverð nýbyggðra íbúða sem keyptar eru með hlutdeildarláni er að jafnaði lægra en annarra íbúða án slíks láns.

Samspil ríkis, sveitarfélaga og iðnaðarins lykilatriði

Í umsögn sinni taka samtökin undir það mat að með bættum fyrirsjáanleika geti sveitarfélög gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu hagkvæms húsnæðis, meðal annars með lækkun lóða- og gjaldakostnaðar og markvissum skipulagsbreytingum, í nánu samstarfi við byggingariðnaðinn og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Samtök iðnaðarins telja brýnt að við áframhaldandi útfærslu hlutdeildarlánakerfisins verði haldið fast í þær meginforsendur sem frumvarpið byggir á: að kerfið sé fyrirsjáanlegt, byggi á raunhæfum skilyrðum og styðji við framboð nýs íbúðarhúsnæðis. Með slíkri nálgun geta hlutdeildarlán orðið öflugt og ábyrgðarsinnað tæki til að mæta húsnæðisvanda til lengri tíma.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.