Fréttasafn



2. mar. 2020 Almennar fréttir Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Samtök iðnaðarins gæta heildarhagsmuna

Umræða um upprunaábyrgðir raforku hefur hreyft við fólki, meðal annars forstjóra Landsvirkjunar, eftir að fréttaskýringarþátturinn Kveikur setti málið á dagskrá. Afstaða Samtaka iðnaðarins í því máli hefur verið skýr um árabil og byggist á því að standa vörð um jákvæða ímynd Íslands sem lands endurnýjanlegrar orku og að efla ímyndina enn frekar í þágu heildarinnar. Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í grein sinn Samtök iðnaðarins gæta heildarhagsmuna í Morgunblaðinu um helgina. Hún segir að í grein forstjóra Landsvirkjunar fyrir viku hafi nokkrum spurningum verið beint til samtakanna og hafi þeim verið svarað á vefsvæði SI. Einnig hafi verið spurt hverra hagsmuna Samtök iðnaðarins gæti og því sé auðsvarað. Hún segir að Samtök iðnaðarins gæti heildarhagsmuna og beita sér fyrir umbótum í íslensku samfélagi svo auka megi verðmætasköpun í landinu. „Enda trúum við því að þannig aukist raunveruleg lífsgæði landsmanna. Við höfum gefið út fjölmargar skýrslur á undanförnum árum, sem unnar hafa verið í góðri samvinnu stjórnar SI, félagsmanna, starfsmanna og sérfræðinga þar sem ekki er eingöngu einblínt á vandamál heldur eru lagðar til fjölmargar leiðir til aukinnar samkeppnishæfni landsins. Þannig stuðlum við að uppbyggilegri umræðu í íslensku samfélagi.“

Í grein sinni fer Guðrún yfir helstu málefni samtakanna og segir það vera heildarhagsmunir að iðnnemum fjölgi þannig að færnimisræmi á vinnumarkaði minnki. Hún segir hagsmuni okkar allra liggja í því að nýsköpun verði drifkraftur vaxtar, skapi eftirsótt störf og nýjar lausnir á samfélagslega mikilvægum viðfangsefnum. Hvað innviði landsins varðar segir hún hagsmunir heildarinnar liggi í að fjárfesta í innviðum landsins svo þeir þjóni sínu hlutverki og til að örva hagvöxt. Þá segir Guðrún að Samtök iðnaðarins beita sér fyrir umbótum í þágu byggingariðnaðarins þannig að uppbygging verði hagkvæmari og skilvirkari. Þannig verða byggðar ódýrari íbúðir og það séu hagsmunir heildarinnar. Einnig að iðnfyrirtæki noti nálægt 90% raforkunnar á Íslandi og því láti samtökin sig raforkumál varða. Hún segir samtökin leggja áherslu á samkeppnishæft raforkuverð en skipti sér að öðru leyti ekki af verðinu. Hagsmunir heildarinnar felist í umbótum á raforkumarkaði sem og aukinni nýtingu. Guðrún nefnir einnig umhverfis- og loftslagsmál sem verði sífellt mikilvægari enda séu almenningur og fyrirtæki meðvitaðri um nauðsyn þess að ganga vel um náttúruna. Hún segir Landsvirkjun og Samtök iðnaðarins ásamt fleiri fyrirtækjum og samtökum hafi stofnað til samstarfs við stjórnvöld um loftslagsmálin með stofnun Grænvangs og þar fara hagsmunir iðnaðar og orkufyrirtækja sannarlega saman og hún sé sannfærð um að það samstarf muni skila árangri í þágu heildarinnar. 

Í niðurlagi greinar sinnar segir Guðrún að lítil skref sem við stígum á hverjum degi leiði smám saman til stórra stökka framfara og aukinna lífsgæða, þannig verði Ísland áfram í fremstu röð.

Hér er hægt að lesa grein Guðrúnar í heild sinni.