Seðlabankinn sýnir framsýni með lækkun vaxta
Samtök iðnaðarins fagna ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig. Lækkunin er mikilvæg viðbrögð bankans við viðsnúningi í efnahagslífinu og þeirri röð áfalla sem dunið hefur á útflutningsgreinar hagkerfisins ásamt því umróti sem hefur skapast á innlendum lánamarkaði í kjölfar nýlegs dóms Hæstaréttar. Að mati SI sýnir ákvörðunin að nefndin er framsýn í störfum sínum, enda fylgja bættar verðbólguhorfur lakara efnahagsútliti. Að mati bankans er spenna horfin úr hagkerfinu og slaki kominn í hennar stað, sem spáð er að haldist næstu árin.
Samtök iðnaðarins höfðu kallað eftir vaxtalækkun. Í greiningu þar sem farið er yfir helstu rök fyrir lækkun benda samtökin á að röð áfalla í útflutningsgreinum, auk merkja um stöðnun og samdrátt í ýmsum greinum hagkerfisins, þar á meðal iðnaði, hafi dekkt efnahagshorfur talsvert frá því að nefndin ákvað vexti síðast. Auk þess hafa SI bent á að breytingar á húsnæðislánamarkaði sem urðu í kjölfar ofangreinds dóms hafa aukið peningalegt aðhald. Seðlabankinn tekur undir þessi sjónarmið. Í Peningamálum sem kom út samhliða ákvörðuninni í morgun, kemur fram að bankinn lækkar hagvaxtarspá sína talsvert, eða úr 2,3% í 0,9% á þessu ári og úr 2,1% í 1,6% fyrir það næsta.
Seðlabankinn tekur einnig undir þau rök SI að með minni hagvexti aukist líkurnar á því að verðbólgumarkmiðinu verði náð fyrr. Bankinn reiknar með að verðbólga hjaðni hraðar á næsta ári en hann spáði áður og að verðbólgumarkmiði hans verði náð á árinu 2027.
SI bentu á að bættar verðbólguhorfur gæfu nefndinni svigrúm til lækkunar stýrivaxta, sem nú hefur orðið raunin. Samtökin töldu að án lækkunar væri hætta á frekari erfiðleikum og að verðbólgumarkmiðinu yrði náð með óþarflega miklum fórnarkostnaði fyrir hagkerfið. Raunar ræddi peningastefnunefnd hættuna á því að halda taumhaldi of þéttu of lengi á síðasta fundi sínum í byrjun október. Unnt er að ná verðbólgu niður án þess að viðhalda jafn háu vaxtastigi.
Helstu orsakir verðbólgu eru hækkandi húsnæðiskostnaður og launaþróun. Það er brýnt að ráðast í umbætur á umgjörð húsnæðismarkaðar með fjölgun íbúða að leiðarljósi sem og umbætur á umgjörð vinnumarkaðar. Með slíkum umbótum væri stutt við stöðugleika til langs tíma.
Samtökin telja mikilvægt að vaxtalækkunarferlinu verði haldið áfram á næsta ári. Stýrivextir bankans eru nú 7,25% eftir lækkunina í morgun og því enn talsvert háir og hátt yfir verðbólgu og verðbólguvæntingum. Aðhaldsstig peningastefnunnar er í því ljósi enn talsvert. Mikilvægt er að peningastefnunefndin dragi úr peningalegu aðhaldi á komandi mánuðum. Næsta vaxtaákvörðun nefndarinnar er 4. febrúar næstkomandi.

