SI fagna breyttu fyrirkomulagi heilbrigðiseftirlits
Samtök iðnaðarins fagna áætlun umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og atvinnuvegaráðuneytisins um breytingar á heilbrigðiseftirliti.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og atvinnuvegaráðuneytið kynntu á fundi sínum í dag sameiginlega áætlanir um breytt fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits þar sem eftirlit er fært frá stofnunum sveitarfélaga til ríkisins. Með breytingunum sem kynntar voru mun framkvæmdaraðilum eftirlits fækka úr ellefu í tvo og stuðla þannig að samræmdu eftirliti um allt land. Samtökin hafa kallað eftir breytingum á fyrirkomulaginu þar sem misræmi hefur verið í framkvæmd eftirlits með þeim afleiðingum að atvinnurekendur búa við mismunandi starfs- og rekstrarskilyrði milli landssvæða og sveitarfélaga.
Sameiginlegar áherslur ráðuneytanna eru í takt við áherslur Samtaka iðnaðarins sem komu m.a. fram í umsögn um endurskoðun fyrirkomulags eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum frá febrúar sl.
Samtökin telja þetta skref í rétta átt en brýna um leið fyrir stjórnvöldum að víða er pottur brotinn þegar kemur að opinberu eftirliti, gjaldtöku og valdheimildum eftirlitsstofnana sem stuðlar að samfélagslegu tapi. Það er mat samtakanna að aukin áhættustýring eftirlits sem og eftirfylgni með kröfum um menntun, þekkingu og réttindi geti dregið úr eftirlitsþörf og að það sé markmið sem vænlegt sé að stefna að.