Fréttasafn



20. maí 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

SI fagna lækkun stýrivaxta Seðlabankans

Peningastefnunefnd Seðlabankans steig stórt skref í rétta átt með ákvörðun sinni um lækkun stýrivaxta bankans um 0,75 prósentur sem tilkynnt var um í morgun. Samtök iðnaðarins höfðu fyrir ákvörðunina sagt að full ástæða væri fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans að stíga stórt skref í lækkun stýrivaxta nú og fagna samtökin því þessari ákvörðun. 

Ákvörðun peningastefnunefndar byggir á þeim rökum sem samtökin bentu á í nýrri greiningu SI um stýrivexti sem nú séu til staðar til að taka stórt skref í lækkun stýrivaxta. Hagvaxtarhorfur hafa versnað umtalsvert á mjög skömmum tíma. Verðbólga hefur hins vegar haldist lág og verðbólguvæntingar verið við verðbólgumarkmið bankans sem gefur honum svigrúm til þess að beita stýrivöxtunum til að vega upp á móti samdrættinum í efnahagslífinu.

Styrivextir-mai-2020

Vaxtalækkanir Seðlabankans skili sér til fyrirtækja

Miðlunarferli stýrivaxta hefur ekki verið sem skyldi undanfarið. Lækkun stýrivaxta hefur því ekki skilað sér að fullu til heimila og fyrirtækja. SI hafa hvatt til þess að gripið sé til aðgerða þannig að vaxtalækkanir Seðlabankans skili sér og sést þess meðal annars stað í ályktun Iðnþings og í orðum formanns SI, Árna Sigurjónssonar, í viðtali í Morgunblaðinu þar sem hann segir meðal annars: „Það er mikið hagsmunamál fyrir landsmenn alla, og fyrirtækin, að bankakerfið sé skilvirkt og að aðgerðir og ákvarðanir Seðlabankans skili sér alla leið.“

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun kemur fram að nefndin noti þau tæki sem hún hefur til þess að lausara taumhald peningastefnunnar miðlist með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja. Þetta er afar jákvætt að mati SI. 

Hagvaxtarspa-fyrir-2020

SI telja líkur á að samdráttur verði meiri en Seðlabankinn spáir

Í spá bankans sem birt var samhliða tilkynningunni um vaxtalækkunina í morgun er reiknað með 8% samdrætti í ár. Spáin er í neðri mörkum þess samdráttar sem spá-aðilar á þessu sviði hafa verið að birta í þessum mánuði en þær spár hafa verið frá 8% upp í 13% samdrátt og er meðaltalið 10%.

Mikil óvissa er í efnahagsspám um þessar mundir og endurspeglast það í þeim mikla mun sem er í einstökum spám. Hins vegar virðist vera að í spá bankans séu því miður talsvert bjartsýnar forsendur um samdrátt í fjárfestingu einkaaðila á þessu ári en bankinn reiknar einungis með ríflega 6% samdrætti þeirra í ár. Virðist sem bankinn byggi þar m.a. á könnun sem gerð var meðal stærstu fyrirtækja landsins snemma  á þessu ári en ljóst er að fjárfestingaráform fyrirtækja hafa breyst mikið síðan þá líkt og hagvaxtarhorfur almennt. Að mati SI eru því líkur á því að samdrátturinn verði meiri í ár en bankinn spáir. Í því ljósi er þörf á enn frekari lækkun stýrivaxta.