Fréttasafn



21. sep. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök leikjaframleiðenda

Skapa og standa vörð um góða menningu í tölvuleikjaiðnaði

Við í leikjaiðnaði getum ekki talað um að skapa góð störf án þess að taka ábyrgð á því að skapa og standa vörð um góða menningu í iðnaðinum. Þetta kom meðal annars fram í máli Þorgeirs F. Óðinssonar, formanns Samtaka leikjaframleiðenda - IGI, við undirritun sáttmála um örugga vinnustaði. Hann sagði að afkoma okkar og lífslíkur væru lbeintengdar við störf okkar. „Það getur því verið ansi ógnvekjandi að standa frammi fyrir vinnuveitanda og þurfa að rugga bátnum þegar við verðum vör við slæma menningu eða misrétti. Þess vegna þarf ábyrgðin á því að skapa og standa vörð um góða menningu að koma að ofan en ekki neðan.“

Í máli Þorgeirs kom fram að vöxtur í íslenskum tölvuleikjaiðnaði hafi verið ævintýralegur síðustu árin og nú væru starfandi 20 íslensk tölvuleikjafyrirtæki og starfsmönnum í iðnaðinum fjölgaði ört. „Við hjá hagsmunasamtökum leikjaframleiðenda teljum að ef rétt sé haldið á spilunum næstu árin geti iðnaðurinn margfaldast að stærð. Nóg eru tækifærin.“ Hann sagði að út frá hagtölum og mælingum væru þetta frábær störf í hátæknigeira þar sem fjárfesting á starfsmann væri hærri en í bæði málmframleiðslu og sjávarútveg og tvöfalt hærri en í ferðamannaiðnaði og kvikmyndagerð. „Þessi störf eru líka beintengd við útflutning sem er auðvitað frábært.“

Sáttmálinn var undirritaður af fulltrúum Samtaka leikjaframleiðenda, Rafíþróttasamtaka Íslands og Game Makers Iceland sem eru grasrótarsamtök íslensks leikjagerðafólks.

Þorgeir F. Óðinsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda - IGI.

Si_ccp_16092021_b-2Erna Arnardóttir, mannauðsstjóri CCP, sem kom að því að vinna sáttmálann las upp inngang hans.

Sattmali_mynd2Frá undirritun sáttmálans, talið frá vinstri, Nanna Elísa Jakobsdóttir hjá Samtökum iðnaðarins, Haukur Steinn Logason hjá CCP, Ívar Kristjánsson hjá 1939 Games, Erna Arnardóttir hjá CCP, Þorgeir F. Óðinsson hjá Directive Games, Ólafur Hrafn Steinarsson hjá Rafíþróttasamtökum Íslands, Alexandra Diljá Bjargardóttir hjá Game Makers Iceland og María Guðmundsdóttir hjá Parity.