Skapa þarf vettvang fyrir tvíþættar íslenskar tæknilausnir
Ísland getur gegnt mikilvægu hlutverki ef við nýtum styrkleika okkar og vinnum saman að því að skapa vettvang fyrir tvíþættar tæknilausnir sem skipta máli – ekki aðeins í viðskiptum, heldur einnig á sviði öryggismála, alþjóðlegra samskipta og samfélagslegs stöðugleika. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein í Morgunblaðinu sem ber yfirskriftina Íslenskt hugvit í þágu framfara og friðar.
Hann segir að við lifum á tímum örra breytinga og öryggismál, viðbúnaður og varnartengd verkefni hafi færst nær okkar daglega lífi nú þegar heimurinn sé að taka stakkaskiptum. Mörkin milli borgaralegrar og hernaðartengdrar notkunar tæknilausna hafi orðið óljósari og þetta kalli á nýja sýn en um leið skapist ný tækifæri. Í greininni kemur fram að á fjölmennri ráðstefnu sem Samtök iðnaðarins héldu í samstarfi við Íslandsstofu og utanríkisráðuneytið hafi verið rætt um tækifærin sem í þessu felist og megi segja að þarna hafi verið fyrsta ráðstefnan um varnariðnað á Íslandi.
Íslenskar tæknilausnir með erindi á alþjóðavísu
Þá kemur fram í grein Sigurðar að á Íslandi séu fjölmörg fyrirtæki sem hafi þróað lausnir með tvíþætt notagildi á mörgum sviðum og lausnir þeirra eigi sannarlega erindi á alþjóðavísu. Þær nýtist í borgaralegu samhengi en geti einnig stutt við viðbúnað, neyðarviðbrögð, öryggismál og jafnvel varnartengd verkefni. Það sé ljóst að eftirspurnin eftir slíkri tækni muni aukast hratt á næstu árum og að markaðurinn sé að stækka og Ísland hafi tækifæri til að taka virkan þátt. „En tækifærin sækja sig ekki sjálf. Til að fyrirtækin okkar geti keppt á þessum vettvangi þarf að opna dyr. Stjórnvöld gegna þar lykilhlutverki. Í alþjóðlegum útboðum og samstarfsverkefnum eru oft settar strangar tæknilegar og stjórnsýslulegar kröfur. Ef við ætlum að styðja íslensk fyrirtæki til að uppfylla þessar kröfur – og jafnvel hafa áhrif á mótun þeirra – þá verðum við að vinna markvisst saman. Samstarf atvinnulífs og stjórnvalda skiptir þar öllu máli.“
Öflugur iðnaður hluti af því að tryggja þjóðaröryggi og viðnámsþrótt
Sigurður segir að tækni með tvíþætt notagildi sé nátengd hugverkaiðnaði sem sé fjórða stoðin í útflutningshagkerfi Íslands. Hún krefjist hugvits, rannsókna, fjárfestinga og samstarfs og skapi störf, efli verðmætasköpun og styrki samkeppnishæfni – en hún sé einnig lykilþáttur í öryggismálum, viðnámsþoli samfélaga og alþjóðlegu samstarfi. „Það er því afar mikilvægt að við horfum ekki á þessa tækni sem einangrað svið, heldur sem hluta af víðtækri efnahags- og öryggisstefnu. Því öflugur iðnaður og tæknilega þróað atvinnulíf er hluti af því að tryggja þjóðaröryggi og viðnámsþrótt – það býr yfir sveigjanleika, getu og úrræðum sem skipta sköpum þegar á reynir.“ Hann segir að hin hliðin sé sú að stjórnvöld þurfi einnig að horfa sérstaklega til þessarar tækni í breyttri heimsmynd, hvetja til þróunar og taka virkan þátt í að sækja tækifærin með fyrirtækjunum.
Aukin krafa um framlag stjórnvalda til öryggis- og varnarmála
Jafnframt segir Sigurður í greininni að í framtíðinni muni aukast krafa um framlag stjórnvalda til öryggis- og varnarmála á hinu stóra, alþjóðlega sviði. „Þar stöndum við frammi fyrir tækifæri: við getum boðið fram íslenskar tæknilausnir – hugvit sem getur hjálpað öðrum að takast á við krefjandi aðstæður.“ Hann segir að íslenskt hugvit geti þannig hjálpað öðrum þjóðum að ná markmiðum sínum í öryggis- og varnarmálum. „Við getum orðið virkur þátttakandi á þessu sviði með því að útvega tæknilega getu, sérhæfðar lausnir og ábyrgt samstarf.“ Það kalli á markvissa nálgun: stefnumörkun, hvata, alþjóðlega hagsmunagæslu og stuðning við þátttöku í alþjóðlegum verkefnum. „Ef allir leggjast á eitt, opnast margar dyr.“
Með góðu samstarfi lykilaðila er mögulegt að sækja tækifærin
Í niðurlagi greinar sinnar segir Sigurður að allt þetta – tækniþróun, markaðsaðgangur, hagsmunagæsla, siðferði og ábyrg nýting – á einn sameiginlegan grunn sem sé samstarf. Til að þetta gangi upp þurfi öflugt og skipulagt samstarf iðnaðarins, stjórnvalda og alþjóðlegra aðila. Áskoranirnar séu sannarlega margar en með góðu samstarfi lykilaðila verði mögulegt að sækja tækifærin. „Þegar við vinnum saman getum við tryggt að íslensk þekking og lausnir fái að blómstra og nýtist ekki aðeins heima, heldur víða um heim. Við getum orðið hluti af lausninni – í þágu öryggis, framfara og friðar.“
Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.
Morgunblaðið, 29. mars 2025.