Stjórnvöld virki vilja allra hagaðila til framkvæmda
Vegna mikillar þarfar til uppbyggingar innviða og viðhalds þeirra á næstu árum er ljóst að hið opinbera getur ekki eitt og sér staðið undir þeim fjárfestingum. Til að af þessum verkefnum verði og þær séu færðar framar í tíma þarf aðkomu einkaaðila til að standa að nauðsynlegri uppbyggingu. Því er mikilvægt að samvinnuleið verði nýtt til að flýta þjóðhagslega mikilvægum samgönguframkvæmdum. Þetta kom meðal annars fram í máli Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í erindi undir yfirskriftinni Innviðir – núna! sem hann flutti í morgun á Innviðaþingi sem fer fram á Hilton Reykjavík Nordica.
Innviðaskuld ekki minnkað frá 2017
Í erindi sínu fór Sigurður yfir helstu staðreyndir sem koma fram í innviðaskýrslum sem Félag ráðgjafarverkfræðinga og Samtök iðnaðarins hafa gefið út þrisvar sinnum frá árinu 2017 að danskri fyrirmynd. Í nýjustu útgáfunni komi fram að uppsöfnuð innviðaskuld sé hátt í 700 milljarðar króna og að þessi innviðaskuld hafi ekki minnkað frá því fyrsta skýrslan kom út, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Hann sagði þessa skuld hvergi koma fram í ríkisreikningum en að landsmenn væru minntir á hana á hverjum degi á einn eða annan hátt.
Fleiri þurfa að draga vagninn en hið opinbera
Sigurður sagði áhugavert að sjá hvernig ríkisstjórnin ætli að bregðast við og bæta í og að það væru allir spenntir að sjá áformaða samgönguáætlun en ljóst væri að það þurfi fleiri að draga þennan þunga vagn en hið opinbera. Þess vegna væri mikilvægt að horfa til samvinnuverkefna sem feli í sér aðkomu einkaaðila af ýmsum toga. Hann sagði að þó háværasta umræðan snéri að fjármögnun þá væru það fjölmargir aðrir þættir sem einkaaðilar geti komið að sem feli m.a. í sér tækifæri til að auka skilvirkni. Sigurður nefndi að ríkið hafi farið af stað með frumvarp um samvinnuverkefni sem varð að lögum, en markmið þeirra hefðu ekki gengið eftir að fullu. Hann nefndi að mikill áhugi væri fyrir stofnun innviðafélags en sjá þyrfti hvernig útfærslan á því verði og hvort það muni raunverulega ná þeim markmiðum sem þurfi.
Innviðaverkefnið þarf að taka föstum tökum
Í niðurlagi erindis síns sagði Sigurður að það væri ríkur vilji og mikill áhugi til fjölbreyttari uppbyggingar innviða hjá öllum helstu hagaðilum; ríki, fjárfestum, verktökum, hönnuðum og ráðgjöfum. Þörfin væri til staðar og viljinn væri til staðar en ekki hefði tekist að finna rétta útfærslu tli að virkja þennan vilja til framkvæmda. Hann vísaði í orð forsætisráðherra sem nefndi að við værum ekki dæmd af vilja heldur af verkum. Auk þess vísaði Sigurður í dæmi um framkvæmd við losun fjármagnshafta sem sett voru á árið 2008. Það hefði verið viðfangsefni stjórnvalda frá 2009 að losa fjármagnshöft og fjölmargir unnið að útfærslu og úrlausn málsins um nokkurra ára skeið. Það er hins vegar umhugsunarefni að það var ekki fyrr en 5-6 árum eftir setningu fjármagnshafta sem starfsmaður var í fullu starfi við þetta verkefni en áður var það hlutastarf margra. Sigurður hvatti stjórnvöld til að taka innviðaverkefnin föstum tökum með því að gera þetta að viðfangsefni eins eða fleiri einstaklinga sem gerðu ekkert annað en að finna heppilegar útfærslur í samráði við helstu hagaðila. Þannig væri viljinn virkjaður til verka.
Hér er hægt að nálgast glærur Sigurðar frá þinginu.
Á vef Viðskiptablaðsins er hægt að nálgast beina útsendingu frá þinginu.
Á vef Innviðaþingsins er hægt að nálgast upptökur frá þinginu.