Allir flokkar ætla að fullfjármagna samgönguáætlun
Allir átta flokkarnir sem tóku þátt í kosningafundi SI undir yfirskriftinni Hugmyndalandið áforma að samþykkja og fullfjármagna samgönguáætlun og fylgja henni eftir. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem gerð var meðal flokkanna þar sem spurt var um málefni sem hafa áhrif á samkeppnishæfni.
Þegar spurt er um áform um að auka fjármuni til að viðhalda þjóðvegakerfinu þannig að staða þess sé góð á næsta kjörtímabili svara sjö flokkar játandi en Píratar eru eini flokkurinn sem vill ekki svara þeirri spurningu.
Allir flokkar nema Flokkur fólksins áformi að láta samvinnuverkefni (e. public private partnership) í vegagerð verða að veruleika. Flokkur fólksins kýs að svara ekki spurningunni.
Hér er hægt að nálgast niðurstöður fleiri spurninga sem lagðar voru fyrir flokkanna.
Opinber áform um uppbyggingu og viðhald innviða ekki gengið eftir
Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, segir á kosningafundi SI að innviðaskuld hér á landi hafi vaxið mikið. Skortur á fyrirsjáanleika hafi einkennt málaflokkinn um langt skeið og opinber áform um uppbyggingu og viðhald hafi ekki gengið eftir. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Píratar, segir að þegar komi að public-private partnership þá hafi Píratar haft ákveðnar efasemdir um hvernig hafi verið farið í slík verkefni. „Að við séum ekki að skrifa upp á einhverja óútfyllta tékka hjá ríkissjóði ef að verkefnið gengur ekki upp.“ Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, spyr Sigurð Inga Jóhannsson, Framsókn, sem fyrsta innviðaráðherrann hvort þurfi ekki að forgangsraða fjármunum til uppbyggingar innviða og fylgja áætlunum betur eftir og svarar Sigurður Ingi því játandi. Hann segir að í innviðaráðuneytinu hafi þau ekki séð fram á að geta farið í þá innviðauppbyggingu á vegum, flugvöllum, höfnum sem þyrfti að gera á öllu landinu nema að auka fjármagn í gegnum ríkissjóð, samgönguáætlun, um einhverja 50 milljarða ofan á það sem fyrir væri. „Þess vegna höfum við verið að undirbúa það að fara aðrar leiðir og upp úr því sprettur höfuðborgarsáttmálinn. Þar sem að nú er komin stefna til 2040 um 15 milljarða framkvæmdir á ári, í 15 ár.“ Sigurður Ingi segir að hann sé að teikna upp fyrirsjáanleika til 15 ára hið minnsta þar sem að framkvæmdirnar séu á bilinu 55 til 60 milljarðar. „Og auðvitað þarf síðan að standa við þetta. Það er verkefni næstu ríkisstjórnar. Við erum búin að leggja af stað, við erum komin langleiðina.“ Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Miðflokki, segir að menn séu að taka allt of stórar ákvarðanir og búa til allt of miklar hindranir út á einhverja furðu draumsýn. „Að miða allt við einhverja draumóra um Borgarlínu. Einhver rugl hugmynd, sem er sko 19. aldar hugmynd í besta falli um hvernig samgöngur muni ganga fyrir sig.“ Svandís Svavarsdóttir, Vinstri græn, segir að höfuðborgarsáttmálinn tali í raun og veru um æðakerfi samfélagsins til lengri framtíðar og sé alveg gríðarlega mikilvæg. „Af því að hér finnst mér fólk vera að tala samgöngusáttmálann og sérstaklega Borgarlínu niður. Við erum að tala um alveg ofboðslega mikilvæga þróun fyrir samfélagið hér á höfuðborgarsvæðinu til lengri tíma þar sem við getum fært mannlífið inn í nútímann.“
Hér er hægt að nálgast umræðu um innviði á kosningafundi SI:
Formenn og fulltrúar átta flokka tóku þátt í umræðum á kosningafundi SI í Silfurbergi í Hörpu.