Fréttasafn



14. nóv. 2024 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Allir nema Vinstri græn áforma að afhúða regluverk

Allir flokkar nema Vinstri græn ætla að ráðast markvisst í afhúðun regluverks þannig að á næsta kjörtímabili verði farið skipulega í gegnum allt regluverk og það einfaldað þar sem það er flóknara en í öðrum ríkjum EES. Þetta kemur fram í niðurstöðum  könnunar sem gerð var meðal þeirra átta flokka sem tóku þátt í kosningafundi SI undir yfirskriftinni Hugmyndalandið þar sem spurt var um málefni sem hafa áhrif á samkeppnishæfni. 

Vinstri græn ætla heldur ekki að draga úr samkeppnisrekstri hins opinbera og auka útvistun verkefna, þau ætla ekki að draga úr þenslu á opinberum vinnumarkaði og ætla ekki að hætta gullhúðun regluverks, þ.e. að við innleiðingu á evrópsku regluverki þá verði ekki gengið lengra en lágmarkskröfur segja til um. 

Allir flokkar nema Vinstri græn sem vilja ekki svara áforma að hagræða í ríkisrekstri á næsta kjörtímabili. Einnig áforma allir flokkar nema Vinstri græn að fækka og sameina ríkisstofnanir og ná þannig fram aukinni hagkvæmni og skilvirkni. Þá ætla allir flokkar að einfalda laga- og reglugerðarumhverfi fyrirtækja nema Vinstri græn sem vilja ekki svara. 

Fimm flokkar áforma að draga úr samkeppnisrekstri hins opinbera og auka útvistun verkefna en það eru Framsókn, Viðreisn, Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Samfylking. Flokkur fólksins og Píratar vilja ekki svara og Vinstri græn svara neitandi. 

Vinstri græn ætla ekki að draga úr þenslu á opinberum vinnumarkaði og Píratar vilja ekki svara. Aðrir flokkar áforma að draga úr þenslu á opinberum vinnumarkaði. 

Allir flokkar nema Vinstri græn, sem vilja ekki svara, áforma að einfalda laga- og reglugerðarumhverfi fyrirtækja.

Fimm flokkar áforma að hætta gullhúðun regluverks, þ.e. Viðreisn, Sjálfstæðisflokkur, Flokkur fólksins, Miðflokkur og Samfylgkin. Framsókn og Píratar vilja ekki svara og Vinstri græn segja nei.

 

Regluverk-og-opinber-umsvif

 

Hér er hægt að nálgast niðurstöður fleiri spurninga sem lagðar voru fyrir flokkanna.


Hér er hægt að nálgast umræður um regluverk og opinber umsvif á kosningafundi SI:

https://vimeo.com/1031544836


Formenn og fulltrúar átta flokka tóku þátt í umræðum á kosningafundi SI í Silfurbergi í Hörpu. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, stýrði umræðunum.