Fimm flokkar ætla ekki að heimila inngrip ríkisins
Fimm flokkar af þeim átta sem tóku þátt í kosningafundi SI undir yfirskriftinni Hugmyndalandið ætla ekki að heimila inngrip ríkisins við endurskoðun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins. Einungis Sjálfstæðisflokkur, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn ætla að heimila slíkt. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem gerð var meðal flokkanna þar sem spurt var um málefni sem hafa áhrif á samkeppnishæfni.
Allir flokkarnir áforma á næsta kjörtímabili að grípa til aðgerða svo jafnvægi framboðs og eftirspurnar náist á húsnæðismarkaði. Einnig áforma allir flokkarnir að flýta fyrir húsnæðisuppbyggingu á landi í eigu ríkisins.
Sjö flokkanna ætla að einfalda ferli húsnæðisuppbyggingar, meðal annars með breytingum á skipulagslögum en Vinstri græn vilja ekki svara.
Sjálfstæðisflokkurinn Flokkur fólksins, Miðflokkurinn og Samfylkingin áforma að hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna vinnu við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í 60% til að hvetja til íbúðauppbyggingar en Vinstri græn ætla ekki að gera slíkt og þrír flokkar vildu ekki svara spurningunni, Framsókn, Viðreisn og Píratar.
Hér er hægt að nálgast niðurstöður fleiri spurninga sem lagðar voru fyrir flokkanna.
Miðflokkurinn vill hverfa frá því skipulagi sem hefur verið ráðandi á höfuðborgarsvæðinu
Í umræðum á kosningafundi SI segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Miðflokki, að grundvallaratriði sé að hverfa frá því skipulagi sem að hafi verið ráðandi hér á höfuðborgarsvæðinu. Þétta einhverja reiti sem að voru aldrei hannaðir fyrir svona þétta byggð til þess að búa til viðskiptavini fyrir Borgarlínuna sem munu hvort eð er aldrei nota hana þeir munu bara leggja bílunum sínum í næstu götum. Kristrún Frostadóttir, Samfylkingunni, segir að það sé pláss fyrir um 50.000 nýjar íbúðir innan núverandi svæðisskipulags en að vandinn hafi hins vegar verið að það sé rosalega dýrt að brjóta nýtt land, það kosti mjög mikinn pening að byggja nýja innviði. Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, segir að það séu vonbrigði að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins skuli ekki duga í þeim tilgangi sem að yfirlýstur er. Hann segir að þetta geri menn og stimpli og gefi út og svo sé bara enginn að framkvæma þetta. Bjarni segir einnig að það hjálpi svo sem ekkert þegar Hagstofan viti ekki hversu margir búa á landinu. „Mér finnst menn stundum gera lítið úr áfallinu sem Grindavík var. Grindavík er eins og Los Angeles fyrir Bandaríkin. Það bara hverfa öll húsin í Los Angeles. Halda menn að þetta verði ekki eitthvað áfall. Auðvitað er þetta áfall fyrir markaðinn. 4.000 manns, þetta kom ofan í annað.“ Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsókn, segir að það sé gott að geta sagt að á síðastliðnum fimm árum hafi þó náðst að klára 3.000 til 3.300 íbúðir á hverju einasta ári. Það hafi síðan komið fjölgun hérna á mannfjölda upp á 3,1% nokkur ár í röð sem gerði það að verkum að þessar 3.300 væru of lítið, þær þurfi að vera 4.000.
Hér er hægt að nálgast umræðu um húsnæðismál á kosningafundi SI:
Formenn og fulltrúar átta flokka tóku þátt í umræðum á kosningafundi SI í Silfurbergi í Hörpu. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, stýrði umræðunum.