Græn orka og sjálfbærni í lykilhlutverki í stefnumótun Evrópu
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, var þátttakandi í pallborðsumræðum á ráðstefnu í ríkisheimsókn forseta Íslands til Danmerkur þar sem rætt var um orkumál í síbreytilegum heimi. Auk Sigurðar tóku þátt í umræðunum Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, Lars Aagaard, umhverfis- og orkumálaráðherra Dana, og Ditte Maria Brasso Sørensen, yfirmanni greininga hjá Think Tank Europe. Finn Mortensen, framvkæmdastjóri State of Green stýrði umræðunum. Af umræðunum var ljóst mikilvægi þess að Ísland og Danmörk ynnu náið saman í orkumálum.
Í máli sínu kom Sigurður meðal annars inn á að græn orka og sjálfbærni gegni lykilhlutverki í stefnumótun Evrópu í dag, þar sem orkupólitík hafi bein áhrif á viðskiptahagsmuni álfunnar. Samkeppnin milli stórvelda eins og Bandaríkjanna og Kína, ásamt metnaðarfullri stefnumótun landa á borð við Indland, Indónesíu og Brasilíu, móti orkuumhverfið og staða Evrópu í alþjóðlegum efnahagsmálum sé undir áhrifum þessara þróunar.
Hann sagði Evrópu leggja æ meiri áherslu á sjálfbærni sem lykilþátt í viðskiptahagsmunum sínum, með áherslu á sjálfstæði í orkumálum og öryggi í ljósi aukinnar spennu í heiminum og stríðsástandi í bakgarðinum. Sigurður sagði græn umskipti skapa samkeppnisforskot, þar sem Evrópa leiði í nýsköpun á sviði sjálfbærrar tækni og endurnýjanlegrar orku.
Einnig sagði Sigurður að Evrópa væri að endurskipuleggja aðfangakeðjur sínar með það að markmiði að draga úr aðföngum frá Kína og auka samvinnu við Bandaríkin. Lönd eins og Indland, Indónesía og Brasilía væru í auknum mæli að koma inn sem nýir aðilar í orkuviðskiptum. Hann sagði að Norðurlöndin, með Ísland í fararbroddi, njóti sterkrar stöðu í þessu samhengi, þar sem endurnýjanleg orka og stafrænar lausnir væru lykilþættir.
Þá kom Sigurður inn á mikilvægi samvinnu á sviði loftslagsmála og grænna lausna, eins og á milli State of Green í Danmörku og Green by Iceland. Hann sagði slíka samvinnu skipta miklu fyrir framtíðarsýn um sjálfbæra orkunýtingu.
Finn Mortensen, framvkæmdastjóri State of Green, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Ditte Maria Brasso Sørensen, yfirmanni greininga hjá Think Tank Europe, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, og Lars Aagaard, umhverfis- og orkumálaráðherra Dana. Mynd/Michael Stub
Frá undirritun samnings milli State of Green og Grænvangs í ríkisheimsókn forseta Íslands til Danmerkur. Mynd/Hildur María Valgarðsdóttir