Fréttasafn



20. júl. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Iðnaður hefur átt stóran þátt í núverandi efnahagsuppsveiflu

Iðnaður er mjög umfangsmikill í íslensku efnahagslífi. Greinin er fjölþætt og snertir nær alla þætti hagkerfisins. Hefur greinin átt stóran þátt í núverandi efnahagsuppsveiflu og skapað nær eitt af hverjum fjórum störfum sem myndast hafa í hagkerfinu frá því að það byrjaði að taka við sér 2010. Greinin hefur þannig átt stóran þátt í því að ná niður atvinnuleysinu sem var eitt helsta mein íslensks hagkerfis eftir efnahagsáfallið 2008. Hefur greinin skilað um þriðjungi hagvaxtarins á þessum tíma. 

Iðnaður skapar 29% landsframleiðslunnar

Íslenskur iðnaður er umfangsmikill í íslensku efnahagslífi. Innan iðnaðar er fjölbreytt flóra af fyrirtækjum sem eru samofin öllum sviðum efnahagslífsins. Iðnaðarstarfsemi hér á landi er því afar mikilvægur þáttur í gangverki hagkerfisins sem skapar margvísleg störf. Skapaði greinin ríflega 29% landsframleiðslunnar með beinum hætti á árinu 2016 eða 705 ma.kr. Ef með er tekinn óbeint framlag greinarinnar til verðmætasköpunar hagkerfisins er umfang hennar umtalsvert meira. Nánar má lesa um þátt greinarinnar í verðmætasköpuninni hér.

Einn af hverjum fimm starfa í iðnaði

Iðnaður er umfangsmikill á íslenskum vinnumarkaði. Ríflega 38 þúsund launþegar voru í iðnaði á síðastliðnu ári. Eru störfin fjölbreytileg á sviði framleiðsluiðnaðar, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerðar og tækni- og hugverkaiðnaðar. Í fyrra voru 21% launþega hér á landi í iðnaði eða ríflega einn af hverjum fimm. Nánar má lesa um þátt greinarinnar í vinnumarkaði hér.

Iðnaður skapar 36% gjaldeyristekna

Gjaldeyristekjur fyrirtækja í iðnaði námu í fyrra 422 mö.kr. eða 36% af heildargjaldeyristekjum þjóðarbúsins af útflutningi vöru og þjónustu árið 2016. Tekjurnar eru af fjölþættri starfsemi iðnaðar á sviði framleiðslu-, hugverka- og byggingariðnaðar. Nánar má lesa um þátt greinarinnar í gjaldeyrissköpuninni hér.

Velta í iðnaði 1.357 milljarðar króna á síðasta ári

Velta í iðnaði nam 1.357 mö.kr. á síðasta ári. Um er að ræða um 33% af allri virðisaukaskattskyldri veltu fyrirtækja í landinu. Undirstrikar það hlutfall mikið umfang iðnaðar í hagkerfinu. Er hlutfallið svipað og það hefur mælst að meðaltali í þessari efnahagsuppsveiflu. Nánar má lesa um þátt greinarinnar í veltu fyrirtækjanna hér.

Ingólfur Bender, hagfræðingur SI

ingolfur@si.is, s. 8246105