Fréttasafn  • Menntadagur2012

13. mar. 2012

Menntadagur iðnaðarins – Markviss menntastefna forsenda öflugs atvinnulífs

Menntadagur iðnaðarins 2012 var haldinn í Háskólanum í Reykjavík föstudaginn 9. mars. Yfirskrift málþingsins var Markviss menntastefna forsenda öflugs atvinnulífs og voru þátttakendur ríflega 70 talsins. Málþingið var haldið samhliða Íslandsmóti verk- og iðngreina og Forritunarkeppni framhaldsskólanna og var því mikið líf og fjör í húsnæði HR.

 

Alls voru flutt níu erindi og var sérstaklega horft á stöðu menntamála út frá aukinni þörf fyrir verk- og tæknimenntað starfsfólk. 

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, setti formlega bæði Menntadaginn og Íslandsmótið og ávarpaði síðan gesti menntadagsins.

Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentors og varaformaður SI fjallaði um hvað má betur fara í íslenska skólakerfinu. Hún sagði m.a. að til að menntastefna styðji raunverulega við atvinnulífið þurfi víðtækt samstarf atvinnulífs, menntayfirvalda og menntastofnana sem hafa raunveruleg áhrif til breytinga og að Ísland hafi einstakt tækifæri til að taka forystu í menntun í heiminum.

Glærur Vilborgar.

Rakel Sölvadóttir, verkefnisstjóri hjá Hjallastefnunni og framkvæmdastjóri Skema ehf. sagði frá nýjum leiðum í forritunarkennsla og spjaldtölvuvæðingu.  Hún vill að nemendum sé ekki eingöngu kennt að vinna á tölvuna heldur einnig með henni og taldi mikið áhyggjuefni að aðeins 2,68% af nýrri aðalnámskrá er helgað upplýsinga- og tæknimennt sérstaklega.

Glærur Rakelar.

Jón B. Stefánsson, skólameistari Tækniskólans, skóla atvinnulífsins skýrði frá núverandi skipulagi verk- og tæknináms og skýrði frá tillögum að úrbótum sem verk- og tæknimenntaskólarnir hafa lagt til við menntamálaráðuneytið.

Glærur Jóns.

Þóra Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Maskínu, kynnti niðurstöður könnunar sem Iðan lét gera í lok ársins 2011 meðal útskrifaðra sveina um vinnuumhverfi iðnaðarmanna. Þar kom m.a. fram að;

  • Þrír af hverjum fjórum myndu mæla með því við ungt fólk að hefja nám í iðngreininni sem þeir hafa lokið sveinsprófi í.
  • Af þeim sem starfa í faginu eru næstum 86% ánægð í sínu starfi og 2,1% óánægð.
  • Meira en 90% eru stolt af starfi sínu.

Helstu niðurstöður könnunarinnar.

Þrír fulltrúar atvinnurekenda fjölluðu um vinnustaðanám út frá sjónarhóli fyrirtækja sinna.

Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, Torfi Pálsson, starfsmannastjóri Ístaks og Eðvald Sveinn Valgarðsson, gæðastjóri Kjarnafæðis.

Glærur Rannveigar

Glærur Torfa

Glærur Eðvalds

Elín Thorarensen verkefnisstjóri og sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu sagði frá þeirri vinnu sem ráðuneytið hefur staðið fyrir í vetur þar sem starfsmenntakerfið í heild sinni hefur verið skoðað í samstarfi við hagsmunaaðila.  23. apríl n.k. verður ráðstefna þar sem niðurstöður vinnunnar verða kynntar og hvert þær niðurstöður leiða okkur.

Glærur Elínar.

Að lokum dró fundarstjóri, Orri Hauksson, fram helstu niðurstöður erinda dagsins og skýrði frá þeim verkefnum sem framundan eru hjá SI.