Fréttasafn9. sep. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök fyrirtækja í málm– og skipaiðnaði

Nýr formaður Málms

Ný stjórn Málms - samtaka fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði var kosin á aðalfundi samtakanna síðastliðinn fimmtudag. Vegna samkomutakmarkana var fundurinn haldinn með óhefðbundnum hætti, stjórn sat fundinn í Húsi atvinnulífsins og aðrir félagsmenn sátu fundinn rafrænt í gegnum fjarfundarbúnað. 

Helgi Guðjónsson, framleiðslustjóri hjá Marel á Íslandi, var kosinn nýr formaður félagsins. Helgi hefur setið undanfarin 2 ár í stjórn Málms og  ætlar hann að beita sér helst fyrir umbótum í menntamálum í málmgreinum. Um iðnnám segir Helgi að mikilvægt sé að það sé uppfært í takt við tíðarandann og horft verði til framtíðar hvað varðar námsefni og kennsluaðferðir og þarfir iðnaðarins hverju sinni. 

Fráfarandi formaður Málms, Guðlaugur Þór Pálsson, fyrrverandi eigandi og framkvæmdastjóri Frostmark, hefur verið formaður félagsins frá árinu 2016. Að loknum aðalfundi var Guðlaugi Þór afhent heiðursmerki Málms fyrir ötult starf innan félagsins og fyrir málmiðnaðinn hér á landi til fjölda ára. Á myndinni eru nýr formaður Málms, Helgi Guðjónsson, (t.v.) og fráfarandi formaður, Guðlaugur Þór Pálsson.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum hélt Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, erindi um íslenskt efnahagslíf og iðnaðinn á tímum COVID

Í nýrri stjórn Málms starfsárið 2020-2021 eru Helgi Guðjónsson, formaður, Marel, Bjarni Thoroddsen, Stálsmiðjan - Framtak, Stefán Sigurðsson, Skipasmíðastöð Njarðvíkur, Jón Þór Þorgrímsson, Málmsteypa Þorgríms Jónssonar, Reynir B. Eiríksson, Ferro Zink, Eiríkur S. Jóhannsson, Slippurinn Akureyri, Ólafur R. Guðjónsson, Vélsmiðja Ólafs R. Guðjónssonar, Daníel Óli Óðinsson, JSÓ, og Freyr Friðriksson, KAPP Ehf.

Stjorn-Malms-2020_1599644795413Ný stjórn Málms ásamt fráfarandi formanni, talið frá vinstri, Brynjar Haraldsson, Frostverk, fulltrúi uppstillinganefndar, Guðlaugur Þór Pálsson, Frostmark og fráfarandi formaður Málms, Daníel Óli Óðinsson, JSÓ, Helgi Guðjónsson, Marel, nýr formaður Málms, Bjarni Thoroddsen, Stálsmiðjan – Framtak, Jón Þór Þorgrímsson, Málmsteypa Þorgríms Jónssonar ehf, Stefán Sigurðsson, Skipasmíðastöð Njarðvíkur, og Hilmar Kristinsson, Stálsmiðjan – Framtak, fulltrúi skoðunarmanna ársreikninga. Á myndina vantar stjórnarmennina Reyni B. Eiríksson, Eirík S. Jóhannsson og Frey Friðriksson.