Fréttasafn3. jan. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Nýtum árið 2023 til góðra verka

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, hvetur til þess að árið 2023 verði nýtt til góðra verka. Hann skrifar um áramót greinar þar sem hann horfir yfir árið 2022 og það sem er framundan á nýju ári:

Nýtum árið 2023 til góðra verka

Í grein í Markaðnum segir Sigurður að meiri óvissa hafi ríkt undanfarið en við eigum að venjast. Besta vika ársins hafi líklega verið vikan milli þess sem sóttvarnareglum var aflétt og áður en Rússar réðust inn í Úkraínu. Þetta ár hafi kennt okkur að búast við hinu óvænta. Það breyti þó ekki stóru myndinni sem sé sú að við séum stödd í miðri grænni iðnbyltingu þar sem framleiðsluhættir breytast og full orkuskipti geti orðið að veruleika á Íslandi í þágu þess að bæta heilsu jarðar. Í niðurlagi greinar sinnar hvetur hann til þess að við nýtum árið 2023 til að byggja upp öflugri iðnað, fleiri eftirsótt störf og meiri verðmæti til hagsbóta fyrir samfélagið allt.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Öflugur iðnaður: eftirsótt störf og verðmæti

Í grein í ViðskiptaMogganum segir Sigurður að þau 44 þúsund sem starfi í fjölbreyttum iðnaði hafi lagt mikið af mörkum á árinu við að skapa verðmæti enda sé iðnaður verðmætasta atvinnugrein landsins. Byggingariðnaður komi að uppbyggingu um land allt, hugverkaiðnaður sé nú orðinn veltumesta útflutningsstoð landsins og í fjölbreyttum framleiðsluiðnaði séu framleiddar vörur sem við notum eða njótum góðs af í daglegu lífi. Frábær afkoma orkufyrirtækja endurspegli mikilvægi orkusækins iðnaðar og þau verðmæti sem hann skapi. Hann segir að sá iðnaður verði fjölbreyttari með tímanum og fram undan gæti verið mikið uppbyggingarskeið með grænum tækifærum á sviði matvælaframleiðslu, líftækni og vetnis- og rafeldsneytis.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vinnum saman að framförum

Í grein í Innherja segir Sigurður að það efist enginn um einlægan vilja kjörinna fulltrúa til þess að bæta samfélagið. Tækifærin séu sannarlega til staðar og viljinn sé allt sem þurfi til þess að styrkja stoðir hagkerfisins, skapa eftirsótt störf um land allt, auka verðmætin og skapa stöðugleika. Hann segir að okkur hafi miðað vel á þessari braut með markvissum aðgerðum en þurfum að halda áfram. „Gleymum því ekki að stjórnvöld í öðrum ríkjum vinna stöðugt að umbótum til að efla samkeppnishæfni. Með því að gera ekkert þá drögumst við aftur úr. Þær umbætur sem hafa átt sér stað á síðustu árum efla okkur nú á óvissutímum og gera hagkerfið betur í stakk búið að takast á við áföll. Öflugur og framsækinn iðnaður sem skapar verðmæti á óvissutímum er forsenda þess að Ísland verði áfram í fremstu röð.“

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Þrennt sem eykur forskot Íslands

Í grein í Kjarnanum segir Sigurður að staðan á Íslandi sé um margt betri en annars staðar en þó Ísland sé eyja þá séum við ekki eyland og aðstæður erlendis hafi með tímanum áhrif hér á landi. Þrennt muni skila okkur sem samfélagi miklum ávinningi á næstu árum, vöxtur hugverkaiðnaðar, græn iðnbylting og aukinn stöðugleiki á húsnæðismarkaði. Hann segir að með markvissum skrefum í rétta átt megi byggja upp og ná árangri til framtíðar. Öflugur iðnaður sé undirstaða velsældar. Til verði eftirsótt störf um land allt, aukin verðmæti skapist og hagur landsmanna vænkist.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.